Viðskipti innlent

Mesti sam­dráttur í út­flutningi í tæp þrjá­tíu ár

Heimir Már Pétursson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm

Efnahagshorfur á þessu ári og næsta versna mikið frá fyrri spám Seðlabankans sem er reiðubúinn að lækka vexti niður í núll ef á þurfi að halda. Samdráttur í útflutningi hefur ekki verið meiri en í fyrra í tæp þrjátíu ár.

Á undanförnum níu mánuðum hefur Seðlabankinn lækkað vexti sína sex sinnum og einu sinni haldið þeim óbreyttum. Verðbólga er komin undir 2,5 prósenta markmið bankans og mun verða það áfram að hans mati. En þrátt fyrir það eru efnahagshorfur að versna, að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra.

„Við erum að sjá verri horfur í útflutningi en við höfum áður gert ráð fyrir. Það er í raun að koma fram í öllum helstu stoðum hagkerfisins. Í ferðaþjónustu, að einhverju leyti líka í sjávarútvegi vegna þess að loðnan er ekki veidd og að einhverju leyti líka í áliðnaði,“ segir Ásgeir.

Spáð er áframhaldandi samdrætti í útflutningi sem var 6 prósent í fyrra og hafði þá ekki verið meiri frá árinu 1991 þegar hann var 5,9 prósent. Með lækkun meginvaxta um 0,25 prósentur í dag hafa þeir lækkað um 1,75 prósentur frá því í maí í fyrra og seðlabankastjóri segir svigrúm til að lækka þá enn frekar.

Þannig að bankinn getur farið með vextina allt niður í núllið ef á þarf að halda?

„Já, já ef á þarf að halda og við teljum að það muni skila ávinningi.“ Hins vegar geti bankinn líka beitt fleiri aðferðum til að örva hagkerfið eins og með því að auka peninga í umferð eða með breytingum á gjaldeyrisgforðanum.

Seðlabankastjóri segir að margt hafi hins vegar stuðlað að því að núverandi niðursveifla hafi ekki komið eins harkalega niður á heimilunum og áður gerðist með hækkandi verðbólgu og minni kaupmætti.

„Við erum að einhverju leyti með breytt viðhorf hjá þjóðinni. Hún sparar miklu meira og sýnir miklu meiri ráðdeild. Við sáum ekki innlenda eftirspurn hlaupa fram úr sér á síðustu árum eins og áður hefur verið. Við erum að sjá stöðugan gjaldeyrismarkað, krónuna í jafnvægi,“ segir Ásgeir og bætir við að skynsamir kjarasamningar hafi einnig haft sitt að segja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×