Viðskipti innlent

17 prósenta fjölgun farþega til Íslands með Icelandair í janúar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umtalsverð fjölgun er á farþegum til og frá Íslandi á milli ára.
Umtalsverð fjölgun er á farþegum til og frá Íslandi á milli ára. Vísir/Vilhelm

Í janúar flutti Icelandair 17% fleiri farþega til Íslands en á sama tíma í fyrra, eða um 103 þúsund farþega, en það er í samræmi við áframhaldandi áherslu Icelandair á ferðamannamarkaðinn til Íslands. Þetta kemur fram í flutningatölum fyrir janúarmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Farþegum frá Íslandi fjölgaði einnig í janúar, eða um 11%. Tengifarþegum fækkaði um 35% í takt við ofangreindar áherslubreytingar en slæmt veður á Íslandi í janúar hafði einnig áhrif þar sem niðurfellingar á flugi gerðu það að verkum að tengifarþegar voru endurbókaðir með öðrum flugfélögum milli Evrópu og Norður Ameríku þessa daga. Komustundvísi í janúarmánuði var 76.0% þrátt fyrir töluverðar raskanir á flugi vegna veðurs, samanborið við 77.1% á sama tíma í fyrra. Sætanýting í millilandastarfsemi félagsins var 73.2% í janúar samanborið við 71.9% á sama tíma 2019.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningunni að áhersla Icelandair í ár verði áfram á ferðamannamarkaðinn á Íslandi.

„Í takt við það fluttum við 17% fleiri farþega til Íslands nú í janúar en á sama tíma í fyrra en á móti hefur tengifarþegum fækkað. Slæmt veður einkenndi janúarmánuð og þurftum við að aflýsa 130 brottförum vegna veðurs og töluvert var um seinkanir á flugi. Við höfum verið að takast á við raskanir af þessu tagi á skilvirkari hátt en áður, með fyrirbyggjandi aðgerðum, breyttum verkferlum og aukinni upplýsingagjöf til farþega. Með þessu hefur okkur tekist að lágmarka áhrif slíkra raskana á farþega og starfsemi okkar verulega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×