Erlent

Læknir sem reyndi að vara við kórónuveiru látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið víða um heim vegna kórónuveirunnar sem Li Wenliang reyndi að vara kollega sína við í desember.
Mikill viðbúnaður hefur verið víða um heim vegna kórónuveirunnar sem Li Wenliang reyndi að vara kollega sína við í desember. AP/Arek Rataj

Kínverskur læknir sem reyndi fyrstur manna að vara við kórónuveirufaraldri í Wuhan er látinn af völdum veirunnar, að sögn kínverskra fjölmiðla. Lögreglan í borginni reyndi að þagga niður í honum þegar yfirvöld reyndu að halda leynd yfir veirunni.

Li Wenliang var 34 ára gamall augnlæknir á sjúkrahúsi í Wuhan. Hann sendi öðrum læknum viðvörun vegna útbreiðslu kórónuveirunnar 30. desember. Ráðlagði hann læknunum að klæðast hlífðarklæðum til að forðast smit.

Lögreglumenn höfðu í kjölfarið afskipti af Li og skipuðu honum að hætta því. Li var látinn skrifar undir bréf þar sem hann var sakaður um að setja fram „falskar fullyrðingar“ sem höfðu „raskað verulega allsherjarreglu“. Yfirvöld báðu Li síðar afsökunar.

Skömmu síðar smitaðist Li af veirunni. Í færslu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo lýsti hann því hvernig hann byrjaði að hósta 10. janúar. Daginn eftir fékk hann hita og tveimur dögum síðar var hann lagður inn á sjúkrahús. Hann greindist með kórónuveiru 30. janúar.

Alls hafa nú fleiri en 560 manns látið lífið af völdum kórónuveirunnar og fleiri en 28.000 smitast, langsamlega flestir í Kína, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×