Erlent

Leiðtogaráðið með neyðarfund um Hvíta-Rússland

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lúkasjenko hefur unnið allar forsetakosningar í sögu sjálfstæðs Hvíta-Rússlands
Lúkasjenko hefur unnið allar forsetakosningar í sögu sjálfstæðs Hvíta-Rússlands AP/Nikolai Petrov

Leiðtogaráð Evrópusambandsins var boðað á neyðarfund í dag vegna ástandsins í Hvíta-Rússlandi. Fjöldamótmæli gegn forseta landsins standa enn yfir eftir umdeildar forsetakosningar.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, var harðorður í garð hvítrússneskra stjórnvalda í dag og sagði ofbeldi gegn mótmælendum óafsakanlegt. Fundað verður um stöðuna á miðvikudaginn.

Samkvæmt landskjörstjórn náði Alexander Lúkasjenko forseti endurkjöri í kosningunum, sem fóru fram fyrir rúmri viku. Bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa sagst efast um niðurstöðurnar og gagnrýnt framkvæmd kosninganna harðlega.

Fjöldamótmæli hófust í raun um leið og útgönguspár lágu fyrir og hafa staðið yfir allar götur síðan. Þúsundir hafa verið handtekin og margir þeirra sem hafa verið leystir úr haldi segjast hafa verið pyntaðir.

Lúkasjenko forseti lagði leið sína í dráttarvélaverksmiðju í morgun til að reyna að afla sér stuðnings verkamanna og voru mótmælendur mættir að taka á móti honum.

Þá greina hvítrússneskir fjölmiðlar frá því að forsetinn hafi sagt verkamönnum að það verði ekki aðrar forsetakosningar fyrr en eftir að hann deyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×