Erlent

„Þar til þið drepið mig, verða ekki aðrar kosningar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lukashenko þvertekur fyrir að halda nýjar kosningar.
Lukashenko þvertekur fyrir að halda nýjar kosningar. AP/Nikolai Petrov/BelTA

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands sem kallaður er „síðasti einræðisherra Evrópu“, segir að ekki verði haldnar aðrar kosningar í landinu fyrr en hann verður drepinn. Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Hvíta-Rússlandi eftir mjög umdeildar kosningar.

Opinberar tölur úr forsetakosningunum um síðustu helgi segja Lukashenko hafa unnið yfirburðasigur. Kosningarnar hafa þó verið gagnrýndar víða og Lukashenko sakaður um kosningasvindl.

Vestræn lýðræðisríki hafa fordæmt framkvæmd kosninganna. Nú síðast sagði Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, að ríkið samþykkti ekki niðurstöður kosninganna og sagði þær hafa verið svik.

Í ræðu fyrir utan verksmiðju í Minsk sagði Lukashenko í morgun að það væri búið að halda kosningar og þær yrðu ekki endurteknar.

„Þar til þið drepið mig, verða ekki aðrar kosningar,“ sagði forsetinn.

Samkvæmt fregnum miðla erlendis sagðist Lukashenko einnig tilbúinn til að deila völdum og breyta stjórnarskrá landsins. Hann myndi þó ekki gera það undir þrýstingi og ítrekaði aftur að ekki yrði kosið aftur.

Svetlana Tikhanovskaya, mótframbjóðandi Lukashenko, hefur sagst tilbúin til að leiða Hvíta-Rússland. Í myndbandsávarpi frá Litháen kallaði hún eftir nýjum sanngjörnum kosningum. Hún gæti leitt ríkið þar til þær yrðu framkvæmdar.

Ræða Lukashenko endaði snögglega í morgun en þúsundir mótmælenda höfðu komið saman við verksmiðjuna og kölluðu þau að forsetanum og sögðu honum að fara. Hann reyndi að lækka í mótmælendum en þakkaði að endingu fyrir sig og yfirgaf pontuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×