Innlent

Rannsókn á banaslysi beinist að notkun sætisbeltis sem stýrisláss

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú flugslysið
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú flugslysið Aðsent

Rannsókn Rannsóknarnefndar samgönguslysa á flugslysi sem varð einum að bana á flugvellinum á Haukadalsmelum í júlí á síðasta ári beinist að notkun sætisbeltis sem stýrisláss, undirbúningi flugs, fyrirflugskoðun sem og gátlistum og notkun þeirra.

Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu rannsóknarinnar á vef nefndarinnar. Flugslysið varð þegar flugmaðurinn, sem var einn um borð, hugðist fljúga og æfa lendingar fyrir lendingakeppni sem skipulögð var síðar um daginn.

Á vef RNSA segir að vélin hafi að sögn sjónarvotta klifrað mjög bratt í flugtaki með mikið afl á hreyflinum. Klifurhorn vélarinnar hafi haldið áfram að aukast uns flugvélin hafi virst hanga á hreyflinum, líkt og það er orðað. Því næst hafi afl verið dregið af hreyflinum, flugvélin fallið niður á hægri vænginn og spunnið einn hring til jarðar.

„Á vettvangi mátti sjá að aftari stýrisstöng fyrir hæðar- og hallastýri flugvélarinnar var fest aftur við aftara sætið með öryggisbelti þess,“ segir í skjali rannsóknarnefndarinnar.

Beinist rannsóknin sem fyrr segir að þeim þætti, auk undirbúningi flugs, fyrirflugskoðun, sem og gátlistum og notkun þeirra.


Tengdar fréttir

Flugsamfélagið slegið eftir banaslysið á Haukadalsflugvelli í gær

Áfallateymi Rauða krossins lauk störfum sínum á Haukadalsflugvelli um klukkan hálf tíu í gærkvöldi eftir að banaslys varð þar í gær. Flugsamfélagið er slegið yfir þeim alvarlegu flugslysum sem hafa verið á landinu í sumar að sögn stjórnarmanns Flugmálafélagsins. Tilviljun hafi ráðið því að tvö flugslys hafi orðið á Haukadalsvelli á tveimur dögum. Rannsókn á vettvangi lauk í gær en vélin var heimasmíðuð. Berghildur Erla segir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×