Fótbolti

Fresta kínversku fótboltadeildinni um óákveðinn tíma og bíða með HM í eitt ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ítalinn Fabio Cannavaro gerði Guangzhou Evergrande að kínverskum meisturum á síðasta ári.
Ítalinn Fabio Cannavaro gerði Guangzhou Evergrande að kínverskum meisturum á síðasta ári. Getty/VCG

Kínverska knattspyrnusambandið hefur tekið þá ákvörðun að hefja kínverska keppnistímabilið ekki á þeim degi sem það átti að byrja. HM í frjálsum hefur líka verið frestað um eitt ár.

Þetta eru dæmi um þau gríðarlegu áhrif sem kórónaveiran er að hafa á Kína en Wuhan-veiran breiðist nú út um allt meginland Kína. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fundar í dag til þess að ræða hvort lýsa þurfi yfir neyðarástandi vegna veirunnar.



Kínverska súperdeildin í knattspyrnu átti að fara af stað 22. febúar næstkomandi og standa yfir til 31. október. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að fresta henni um óákveðinn tíma. Það á einnig við allar aðrar deildir í landinu.

Margir frægir leikmenn spila með kínversku liðum eins og Yaya Toure, Marouane Fellaini, Oscar, Marko Arnautovic og Salomon Rondon.

Þetta er ekki eini íþróttaviðburðurinn í Kína sem er á undanhaldi.





Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum innanhúss átti að fara fram 13. til 15. mars í Nanjing í Kína en Alþjóðafrjálsíþróttasambandið ákvað að fresta því um eitt ár.

Þá hefur keppni í alpagreinum á skíðum, sem átti að fara fram 15. og 16. febrúar í Kína, verið flautað af.

Það er síðan uppi óvissa um hvort Kínakappasturinn í formúlu eitt fari fram en hann er áætlaður í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×