Mönnum var heitt í hamsi í leik New York Knicks og Memphis Grizzlies í NBA-deildinni í nótt.
Undir lokin, í stöðunni 106-124, reyndi Jae Crowder, leikmaður Memphis, þriggja stiga skot sem fór illa í leikmenn Knicks.
Slagsmál brutust út og Crowder og Marcus Morris var hent út úr húsi. Memphis vann leikinn, 106-127. Þetta var fjórði sigur liðsins í röð.
Morris var enn heitur eftir leik og lét Crowder heyra það. Morris taldi að Crowder hafi sýnt vanvirðingu með því að reyna þriggja stiga skot þegar úrslitin voru ráðin.
„Hann spilar leikinn á annan hátt. Hann er með kvenlega tilbuði á vellinum, með leikaraskap allan tímann. Þetta er leikur karlmanna og þú verður þreyttur á þessu. Hann er linur, mjög kvenlegur,“ sagði Morris við fjölmiðla eftir leik.
Ummæli Morris mæltust ekki vel fyrir og hann baðst afsökunar á þeim á Twitter.
Hann sagðist bera virðingu fyrir konum og ummælin hafi verið látin falla í hita leiksins. Hann hafi aldrei ætlað sér að móðga konur.
I apologize for using the term “female tendencies” I have the upmost respect for women and everything they mean to us. It was a Heat of the moment response and I never intended for any Women to feel as though in anyway I’m disrespecting them. Again I apologize with my comments.
— Marcus Morris (@MookMorris2) January 30, 2020
Morris skoraði 17 stig og tók sex fráköst í leiknum í Madison Square Garden í nótt.
Knicks er með næstlélegasta árangurinn í Austurdeildinni. Liðið hefur aðeins unnið 13 leiki en tapað 36.