Erlent

Grikkir ætla að reisa tálma undan ströndum Les­bos til að stöðva flótta­fólk

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Milljónir flóttamanna hafa hætt sér yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku í von um að komast til Grikklands eða annarra Evrópuríkja.
Milljónir flóttamanna hafa hætt sér yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku í von um að komast til Grikklands eða annarra Evrópuríkja. epa/KAY NIETFELD

Gríska ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir áætlanir sínar um að leggja fljótandi tálma til að hindra flóttafólk á leið sinni yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku til grískra eyja. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Guardian.

Ríkisstjórnin greindi frá fyrirætlunum sínum á þriðjudag eftir að hafa heitið því að vera strangari í stefnu sinni gagnvart óskráðum innflytjendum í landinu.

Flóttamannabúðir á Lesbos eru yfirfullar.EPA/DIMITRIS TOSIDIS

Tálminn verður 2,7 km langur og mun rísa út af ströndum Lesbos, eyju sem vakti mikla athygli þegar borgarastyrjöldin í Sýrlandi stóð sem hæst og nærri milljón flóttamanna sigldi að ströndum eyjunnar. Tálminn mun gnæfa fimmtíu metra yfir sjávarmáli, á milli mastranna verða strengd net og sjórinn í kring verður lýstur upp af ljóskösturum til að tryggja strendur Grikklands.

Varnarmálaráðherra Grikklands, Nikos Panagiotopoulos sagði í samtali við útvarpsstöðina Skai að tálmar líkt og þessi hafi reynst Grikklandi vel og vísaði í gaddavírsgirðinguna sem reist var á landamærum Grikklands við Tyrkland árið 2012 til að tefja hælisleitendur. „Við teljum að þessir flottálmar geti skilað svipuðum árangri. Við erum að reyna að finna lausn á flóttamannastraumnum.“

Smábarn í flóttamannabúðum á Lesbos.epa/ORESTIS PANAGIOTOU

Amnesty International hefur gagnrýnt áætlunina harðlega og vöruðu við því að tálminn yki hættuna sem hælisleitendur þurfi að mæta á vegferð sinni að auknu öryggi. Þá lýsti Dimitris Vitsas, fyrrverandi ráðherra sem fór með mál innflytjenda í Grikklandi, tálmanum sem „heimskulegri hugmynd“ sem myndi ekki virka sem skyldi. „Sú hugmynd að slík girðing af þessari lengd muni virka er gjörsamlega fáránleg,“ sagði hann. „Hún mun ekki stöðva neinn við að fara yfir hafið.“

Fleiri innflytjendur og flóttafólk hafa komið til Grikklands síðustu ár en nokkurs annars Evrópulands og hafa smyglarar flutt fólk frá ströndum Tyrklands til grískra eyja í miklu mæli. Meira en 44 þúsund einstaklingar eru í flóttamannabúðum á eyjunum en þær eiga aðeins að geta hýst 5.400 einstaklinga. Mannréttindasamtök hafa lýst ástandinu í búðunum sem átakanlegu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×