Erlent

Anne-Elisabeth nú skráð myrt daginn sem hún hvarf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október árið 2018.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október árið 2018. Norska lögreglan

Hvarf Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs sem hvarf af heimili sínu í Lørenskógi í nágrenni Óslóar árið 2018, telst nú óupplýst morðmál. Anne-Elisabeth hefur því verið skráð myrt daginn sem hún hvarf í kerfum lögreglu.

NRK hefur eftir Tommy Brøske, lögreglustjóra sem farið hefur með rannsókn á hvarfi Anne-Elisabeth, að ekki sé hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær Anne-Elisabeth hafi verið myrt. Eðlilegast sé þó að skrá dagsetninguna 31. október 2018, daginn sem talið er að Anne-Elisabeth hafi verið rænt.

Tölur yfir morðtíðni fyrir árið 2019 í Noregi voru birtar í vikunni. Þá var einnig birtur nýr listi af 34 óupplýstum, norskum morðmálum frá árinu 1991. Nýjasta málið á síðarnefnda listanum er hvarf Anne-Elisabeth, sem rannsakað hefur verið í rúmt ár.

Haft er eftir Svein Holden, lögmanni Hagen-fjölskyldunnar, í frétt NRK að þessi nýja skráning málsins sé í takt við fyrri yfirlýsingar lögreglu. Þetta komi honum því ekki á óvart.

Síðast í janúar réðst norska lögreglan í frekari leit að Anne-Elisabeth, bæði á láði og legi. Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan hún hvarf og hefur lögreglan orðið lítils vísari, þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn.

Nokkuð langt er síðan lögregla byrjaði að ganga út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt, þrátt fyrir skilaboð meintra mannræningja þess efnis að hún sé á lífi. Þá hefur lögregla einnig gefið það út að mannránið hafi verið sviðsett til þess að hylma yfir slóð morðingjanna.


Tengdar fréttir

Lögregla leitar svara hjá skókaupendum

Lögregla í Noregi beinir nú sjónum sínum að sporum sem fundust á heimili Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs, sem var rænt af heimili sínu í Lørenskógi í lok október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×