Erlent

Stöðva samgöngur vegna Wuhan-veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Íbúi Wuhan-borgar, klæddur andlitsgrímu. Viðbúnaður vegna veirunnar er mikill.
Íbúi Wuhan-borgar, klæddur andlitsgrímu. Viðbúnaður vegna veirunnar er mikill. Vísir/Getty

Stjórnvöld í kínversku milljónaborginni Wuhan, sem ný tegund af kórónaveiru sem hefur ekki fundist í manneskjum fyrr en nú er kennd við, hafa ákveðið að stöðva samgöngur út úr borginni, með það fyrir augum að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.

Í frétt BBC af málinu kemur fram að strætó, lesta-, flug- og ferjuferðum verði aflýst frá klukkan tíu að morgni 23. janúar, að staðartíma.

Veiran hefur nú orðið 17 manns að bana, en alls hefur tekist að staðfesta 440 smit í fólki.

Yfirvöld Kína hafa rakið veiruna til fiskmarkaðar í borginni Wuhan. Þar munu sölumenn hafa selt lifandi og villt dýr með ólögmætum hætti, auk þess að selja fiskafurðir. Uppruni veirunnar hefur þó ekki verið staðfestur.

Veiran hefur greinst í Kína, Taílandi, Taívan, Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum. Allir sem smitast hafa utan Kína ferðuðust nýverið til Wuhan. Vitað er til þess að minnst 2.197 manns hafa komist í tæri við fólk sem hefur smitast. Ekki er talið að nokkur aðili hafi smitað fleiri en tíu aðra, en slíkir aðilar kallast „ofursmitarar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×