Erlent

Frakklandsforseti húðskammaði ísraelskan lögreglumann

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Macron var ekki sáttur.
Macron var ekki sáttur. Skjáskot/Twitter

Emmanuel Macron Frakklandsforseti setti ofan í við ísraelskan lögreglumann fyrir að hafa verið inni í kaþólskri kirkju á yfirráðasvæði Frakklands í Jerúsalem í dag.

Forsetinn var í heimsókn í borginni í dag, en hann er staddur í Ísrael til þess að vera viðstaddur minningarathöfn um fórnarlömb Helfararinnar. Athöfnin er haldin af ísraelskum stjórnvöldum.

Macron var á gangi um borgina og hugðist meðal annars heimsækja kirkju heilagrar Önnu. Kirkjan er álitin undir yfirráðum Frakklands, og hefur verið það frá árinu 1856, þegar ottómanski soldáninn Abdülmecid færði hana Napóleoni þriðja að gjöf.

Í myndbandi af atvikinu umrædda má sjá Macron byrsta sig við viðstadda vegna athæfis lögreglumannsins.

„Vinsamlegast farðu út,“ heyrðist Macron meðal annars segja. „Gerið það, virðið reglurnar. Svona hafa þær verið um aldir. Þær munu ekki breytast með mér.“





Margir hafa bent á líkindi með atvikinu og öðru sem gerðist á sama stað árið 1996. Þá taldi Jacques Chirac, þáverandi forseti Frakklands, viðveru ísraelskra öryggissveita við kirkjuna vera ögrun. Raunar hótaði hann þá að fljúga rakleiðis aftur til Frakklands, yrði málið ekki leyst eftir hans höfði.





Ísraelsk lögregluyfirvöld og innanlandsleyniþjónusta Ísraels, Shin Bet, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kjölfar atviksins í dag. Þar sagði að ákveðið hefði verið að lögreglumaður og vörður á vegum leyniþjónustunnar myndu fylgja Macron inn í kirkjuna.

Í yfirlýsingunni kom einnig fram að eftir að Macron heimsótti kirkjuna hafi hann beðist afsökunar á atvikinu og tekist í hendur við öryggisfulltrúana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×