Erlent

Loka annarri borg í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Öryggisvörður í lestarstöð í Wuhan, mælir hitastig konu.
Öryggisvörður í lestarstöð í Wuhan, mælir hitastig konu. AP/Xinhua

Yfirvöld Kína hafa tilkynnt að annarri borg, Huanggang, sem liggur nærri Wuhan, hafi verið lokað vegna Wuhan-veirunnar svokölluðu. Rúmlega sjö milljónir manna búa í borginni Huanggang. Minnst sautján eru dánir og rúmlega 600 sýktir af veirunni en vegna ótta við frekari smit á stærstu ferðahelgi Kína hefur Wuhan svo til gott sem verið lokað og gripið hefur verið til svipaðra en umfangsminni aðgerða í Huanggang.

Samgöngur hafa verið felldar niður og vegum úr Wuhan hefur verið lokað. Íbúar þar hafa slegist um matvörur og aðrar nauðsynjar í verslunum.

Kvikmyndahúsum, kaffihúsum og öðrum samkomustöðum verður lokað í Huanggang og hafa borgarar verið beðnir um að yfirgefa borgina ekki. Þá verður almenningssamgöngum einnig lokað.

Búið er að gefa út upplýsingar um þá sautján sem hafa dáið hingað til. Að mestu er um eldri menn að ræða með aðra undirliggjandi heilsukvilla. Yngsta fórnarlambið er 48 ára gamall og það elsta 89 ára.

Læknir í Wuhan sem ræddi við BBC segir útbreiðslu veirunnar hafa aukist hratt. Þúsundir íbúa hafi leitað á sjúkrahús og þurfi að bíða klukkustundum saman eftir læknisaðstoð. Margir séu mjög hræddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×