Erlent

Noregs­konungur á­fram á sjúkra­húsi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Noregskonungur þegar hann kom til jólamessu í kapellunni á Holmenkollen í Osló á jóladag.
Haraldur Noregskonungur þegar hann kom til jólamessu í kapellunni á Holmenkollen í Osló á jóladag. Mynd/Konungshöllin, Sven Gj. Gjeruldsen.

Haraldur fimmti Noregskonungur verður áfram á sjúkrahúsi í Osló að minnsta kosti fram yfir helgi. 

„Konungur var lagður inn á Ríkisspítalann vegna svima. Hann er á batavegi og búist er við að hann verði útskrifaður í næstu viku,“ sagði í stuttri tilkynningu norsku konungshallarinnar nú síðdegis. 

Í tilkynningu hallarinnar á miðvikudag hafði verið vonast til að konungur yrði útskrifaður fyrir helgi, - það er í dag. Jafnframt var þá sagt að enginn alvarlegur sjúkdómur hefði greinst. 

Haraldur tók ekki þátt í opnunarathöfn Johan Sverdrup-olíusvæðisins í Norðursjó fyrr í vikunni, eins og áformað hafði verið. Kom það því í hlut Ernu Solberg forsætisráðherra að gangsetja svæðið formlega, eins og fram kom á Stöð 2. 

Sjá hér: Segir að skála ætti í kampavíni fyrir nýja olíuvinnslusvæðinu

Hákon krónprins gegnir konunglegum skyldum í veikindaforföllum föður síns. Myndin er frá árinu 2016.Mynd/Konungshöllin, Jørgen Gomnæs.

Tilkynnt var í fyrradag að konungur yrði í veikindaleyfi í tvær vikur. Hákon krónprins sinnir konunglegum skyldum í forföllum föður síns. Þannig stýrði krónprinsinn fundi ríkisráðs Noregs í dag. Konungur var einnig frá störfum í desember, þá vegna veirusýkingar. 

Þá stóð til að konungur myndi fylgjast með leik Noregs og Bosníu-Hersegóvínu í Evrópukeppninni í handbolta í Þrándheimi síðdegis. Krónprinsinn mætti í staðinn á leikinn og sá norska liðið fagna sigri. 

Fyrir fimmtán árum gekkst Haraldur undir tvær hjartaaðgerðir með skömmu millibili og var þá meðal annars skipt um hjartaloku. Tveimur árum fyrr var hann skorinn upp vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. 

Haraldur verður 83 ára í næsta mánuði. Hann tók við konungdómi við andlát föður síns, Ólafs fimmta Noregskonungs, þann 17. janúar árið 1991, en margir minnast þess að sama dag hófust Heklugos og Persaflóastríð. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá óvæntri skyndiheimsókn Haraldar til Íslands árið 2015.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×