Innlent

Gular viðvaranir í gildi á öllu landinu í dag nema á Austur- og Suðausturlandi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi á öllu landinu í dag nema á Austur- og Suðausturlandi.
Gular viðvaranir eru í gildi á öllu landinu í dag nema á Austur- og Suðausturlandi. Veðurstofa Íslands

„Nú er hann búin að snúa sér í suðvestanátt á öllu landinu núna. Hvassviðri og jafnvel stormur eitthvað fram eftir degi á landinu norðan og vestanvert og það gengur á með éljum og víðast skafrenningur og blint á fjallvegum og heiðavegum en svo fer þetta að ganga niður seinnipartinn í dag,“ sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Gular viðvaranir eru í gildi á öllu landinu í dag nema á Austur- og Suðausturlandi og því ekkert ferðaveður. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka á vegum í flestum landshlutum og sumstaðar jafnvel flughált. Holtavörðuheiðin er lokuð vegna þverunar flutningsbíls, en búist er við að aðgerðir taki töluverðan tíma og því ekki hægt að segja til um hvenær vegurinn opnar á ný. Hjáleið er um Laxárdalsheiði númer 59 og Bröttubrekku númer 60 en mikil hálka er á leiðinni. Þá hefur einhverjum innanlandsflugum verið aflýst eftir hádegi.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg barst eitt útkall þegar þakklæðning fauk af húsi á Suðurnesjum í gærkvöld, en annars var rólegt hjá Björgunarsveitinni í nótt.

Er eitthvað lát á þessu veðri, hvernig verður þetta næstu daga?

„Nei það er lítið lát á því, á morgun er að koma snjókoma á norðanverðu landinu og eitthvað á Suðvesturlandinu líka. Svo eru fram eftir næstu viku útlit fyrir mjög hvassa Norðaustanátt með snjókomu eða slyddu fyrir Norðan og austan,“ sagði Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×