Erlent

Handtóku sendiherra Breta í Íran

Eiður Þór Árnason skrifar
Rob Macaire, sendiherra Breta í Íran.
Rob Macaire, sendiherra Breta í Íran. Breska utanríkisráðuneytið - Vísir/AP

Rob Macaire, sendiherra Breta í Íran, var handtekinn þar í landi í gær fljótlega eftir að hann var viðstaddur minningarathöfn vegna flugslyssins sem varð 176 manns að bana. Athöfnin umbreyttist síðar í mómæli gegn stjórvöldum í Íran.

Macaire var í haldi íranskra yfirvalda í þrjá klukkutíma, að sögn breskra yfirvalda. Hann og aðrir starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa yfirgefið svæðið þegar mótmæli fóru að brjótast út.

„Handtaka sendiherra okkar í Teheran án ástæðu eða útskýringar er svívirðilegt brot á alþjóðalögum,“ kom fram í yfirlýsingu Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, vegna málsins.

Morgan Ortagus, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði handtökuna vera brot á Vínarsáttmálanum, sem er ætlað að tryggja friðhelgi og réttindi erlendra stjórnarerindreka.

Yfirvöld í Íran viðurkenndu í gær að flugvélin sem um ræðir hafi verið skotin niður með íranskri eldflaug fyrir mistök, þrátt fyrir að hafa áður ítrekað staðhæft að engri eldflaug hafi verið skotið á loft.


Tengdar fréttir

Þvertaka enn fyrir að flugvélin hafi orðið fyrir eldflaug

Yfirvöld Íran þvertaka enn fyrir að farþegaþota frá Úkraínu hafi verið skotin niður yfir Íran í vikunni. 176 létu lífið þegar flugvélin féll til jarðar skömmu eftir flugtak í Teheran á miðvikudaginn.

Mörgum spurningum ósvarað vegna flugvélarinnar

Embættismenn í Úkraínu segja að Íranar hefðu mögulega aldrei viðurkennt sök ef úkraínskir rannsakendur hefðu ekki fundið ummerki sprengibrota á braki úr flugvélinni.

Úkraína vill skaðabætur og ítarlega rannsókn

Forseti Úkraínu kallaði í yfirlýsingu sinni í dag að Íran hefji ítarlega rannsókn á því að úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður af íranska hernum skömmu eftir brottför frá Tehran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×