Erlent

Hyggst herja á samkynhneigða í ljósi dóms yfir raðnauðgaranum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Reynhard Sinaga var á dögunum dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um 159 kynferðisbrot gegn 48 karlmönnum.
Reynhard Sinaga var á dögunum dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um 159 kynferðisbrot gegn 48 karlmönnum. Lögregla í Manchester

Mannréttindaráð Indónesíu (National Commission on Human Rights) fordæmir fyrirætlanir borgarstjóra í landinu um að herja á samfélag hinseginfólks í ljósi dóms yfir indónesískum raðnauðgara í Bretlandi.

Reynhard Sinaga var á dögunum dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um 159 kynferðisbrot gegn 48 karlmönnum. Í dómnum segir að Sinaga þurfi að sitja í fangelsi í þrjátíu ár hið minnsta en hann hefur verið kallaður mesti raðnauðgari breskrar réttarsögu.

Mohammad Idris, borgarstjóri indónesísku borgarinnar Depok, hyggst nú skipa sérstaka löggæslumenn og siga þeim á heimili hinseginfólks í borginni, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir yfirlýsingu lögreglu í Depok. Meðfram því kveðst hann ætla að koma á fót endurhæfingarstöð fyrir „fórnarlömb“ innan hinseginsamfélags borgarinnar.

Forsvarsmaður mannréttindaráðsins sagði í samtali við Reuters að fyrirhugaðar innrásir inn á heimili samkynhneigðra stuðluðu að því að þeir yrðu frekar sóttir til saka og beittir harðræði, á svig við lög.

Samkynhneigð er ekki refsiverð í Indónesíu, að undanskildu einu héraði í vesturhluta landsins, en borið hefur á vaxandi andúð í garð hinseginfólks í landinu síðustu ár.

Hinn 36 ára Reynhard Sinaga stundaði doktorsnám í Bretlandi og sat fyrir fórnarlömbum sínum fyrir utan skemmtistaði í Manchester. Hann byrlaði mönnunum ólyfjan og fór með þá heim til sín þar sem hann braut kynferðislega á þeim á meðan þeir voru meðvitundarlausir.


Tengdar fréttir

Doktorsnemi sakfelldur fyrir 159 kynferðisbrot gegn 48 körlum

Breskir fjölmiðlar nafngreindu í dag indónesískan doktorsnema sem sakfelldur hefur verið fyrir 159 kynferðisbrot gegn 48 körlum yfir nokkurra ára tímabil, þar af 136 nauðganir. Lögregla telur sig hafa sannanir fyrir því að fórnarlömb hans séu í raun 190.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×