Erlent

Kurz og Græningjar náðu saman

Atli Ísleifsson skrifar
Sebastian Kurz og Werner Kogler í morgun.
Sebastian Kurz og Werner Kogler í morgun. epa

Austurríski þjóðarflokkurinn (ÖVP) og Græningjar þar í landi hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir nokkurra mánaða viðræður. Sebastian Kurz, leiðtogi Þjóðarflokksins, mun þar með setjast í stól kanslara á ný.

Kurz leiddi stjórn Þjóðarflokksins og Frelsisflokksins, en sú stjórn hrökklaðist frá í maí í kjölfar hneykslismáls sem sneri að leiðtoga Frelsisflokksins.

Þingkosningar fóru fram í landinu í september þar sem enginn flokkur hlaut meirihluta. Talsmaður Græningja hefur hins vegar nú staðfest að stjórnarmyndunarviðræður hafi borið ávöxt. Stjórnarsamstarfið hefur verið kallað túrkísgrænt vegna þeirra einkennislita flokkanna, en þetta er í fyrsta sinn sem Þjóðarflokkurinn og Græningjar starfa saman í ríkisstjórn.

Werner Kogler, leiðtogi Græningja, segir að Austurríki ætti nú að verða í framvarðasveit ríkja þegar kæmi að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Kogler mun gegna embætti varakanslara.

Stjórnarsáttmáli flokkanna verður kynntur í dag. Þykir líklegt að skattar verði almennt lækkaðir þó að ýmsir umhverfisskattar komi til með að hækka. Austurrískir fjölmiðlar telja að Græningjar komi til með fara með fjögur ráðherraembætti í fimmtán manna ríkisstjórn.

Brigitte Bierlein, forseti stjórnlagadómstóls Austurríkis, hefur gegnt embætti kanslara landsins síðustu mánuði. Alexander Van der Bellen forseti skipaði hana til bráðabirgða eftir að ríkisstjórn Þjóðarflokksins og Frelsisflokksins hrökklaðist frá völdum.

Þjóðarflokkurinn fékk 37 prósent atkvæða í kosningunum í september og Græningjar fjórtán.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×