Fótbolti

Ráku alla landsliðsþjálfarana sína á einu bretti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Kwesi Appiah var að stýra landsliði Gana í annað skiptið en hann var búinn að vera þjálfari liðsins frá 2017. Appiah var líka landsliðsþjálfari frá 2012 til 2014.
James Kwesi Appiah var að stýra landsliði Gana í annað skiptið en hann var búinn að vera þjálfari liðsins frá 2017. Appiah var líka landsliðsþjálfari frá 2012 til 2014. EPA/Marius Becke

Það er óhætt að segja að yfirmenn knattspyrnusambands Gana hafi ákveðið að taka til í landsliðsstarfi sínu um áramótin.

Landsliðsþjálfarinn Kwesi Appiah þurfti að taka pokann sinn en hann var langt frá því að vera sá eini.

Knattspyrnusamband Gana ákvað nefnilega að reka alla landsliðsþjálfara sína, hvort sem þeir voru með sautján ára, nítján ára, 21 árs eða A-landslið og þá skipti ekki máli hvort þeir þjálfuðu karlalið eða kvennalið.

Það voru ekki aðeins landsliðsþjálfarnir sem fuku heldur einnig allir þeir sem höfðu komið að þjálfarateymunum og líka þeir sem voru í tækninefndum landsliðanna.



Í stuttu máli er um algjöra hreinsun að ræða og það ættu því að vera nokkur starfsviðtöl á næstunni hjá forráðamönnum knattspyrnusambands Gana.

Nýr stjórn tók við hjá knattspyrnusambandi Gana í október og hún hefur heldur betur látið til sín taka.

Landsliðsþjálfarinn fyrrverandi Kwesi Appiah var með þrjá fyrrum landsliðsmenn með sér í teyminu en það voru þeir Richard Kingson, Charles Akunnor og Stephen Appiah.

Það bjuggust margir við að Kwesi Appiah myndi taka pokann sinn eftir að Gana datt út strax í annarri umferð í síðustu Afríkukeppni landsliða. Það kemur hins vegar mikið á óvart að engum var hlíft í þessum risastóru aðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×