Enski boltinn

Tvö ár í dag síðan að Liverpool breytti örlögum félagsins með því að selja sinn besta mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson Becker og Virgil van Dijk.
Alisson Becker og Virgil van Dijk. Getty/Andrew Powell

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og ríkjandi Heims- og Evrópumeistari félagsliða. Kannski var það einn dagur í janúarmánuði árið 2018 sem lagði grunninn að þessum titlum liðsins.

6. janúar 2018 er líklega einn mikilvægasti dagurinn í sögu núverandi liðs hjá Liverpool því á þessum degi eignaðist félagið peninginn til að lagfæra hjá sér varnarleikinn.

Liverpool hafði raðað inn mörkum í marga mánuði en varnarleikurinn var venjulega ekki upp á marga fiska. Það að halda hreinu þekktist varla á Anfield á þessum tíma.

Það var hins vegar á þessum degi fyrir tveimur árum síðan sem Liverpool seldi Philippe Coutinho til Barcelona og fékk fyrir hann enga smá upphæð eða 188,2 milljónir dollara.

Þessi sala á Philippe Coutinho voru ekki góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool á þeim tíma enda Philippe Coutinho stærsta stjarna liðsins. Fyrrnefndir stuðningsmenn liðsins líta örugglega flestir öðruvísi á þessa sölu í dag.



Leikmenn eins og Mohamed Salah og Sadio Mané tóku meiri ábyrgð í sóknarleiknum í framhaldinu og Liverpool hefur því ekki saknað Philippe Coutinho mikið á þessum 24 mánuðum sem eru liðnir.

Það sem skiptir hins vegar mestu máli er að Jürgen Klopp gat notað peningana í að kaupa miðvörðinn Virgil van Dijk í janúar 2018 og markvörðinn Alisson Becker um sumarið. Samtals kostuðu þessir tveir aðeins minna en Liverpool fékk fyrir Philippe Coutinho.

Liverpool sóknin veiktist ekki mikið við það að missa Philippe Coutinho en varnarleikurinn var allt annað og miklu betri með þá Virgil van Dijk og Alisson Becker.

Í framhaldinu komst Liverpool í tvo úrslitaleiki í röð í Meistaradeildinni, var hársbreidd frá enska meistaratitlinum í fyrra, vann Meistaradeildina í júní, heimsmeistari félagsliða í desember og er nú með örugga forystu í ensku úrvalsdeildinni á leið sinni að fyrsta enska meistaratitlinum í þrjátíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×