Innlent

Prjóna fyrir móðurlaus dýr

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Hópur fólks ætlar að bregðast við ákalli dýraverndunarsamtaka í Ástralíu og hittast á Kex Hosteli í Reykjavík í kvöld og prjóna poka fyrir dýr sem eru móðurlaus eftir gróðureldana í Ástralíu.

Það er Erin Jade Turner sem átti hugmyndina af því að halda prjónakvöldið en hún fékk Pétur vin sinn til að aðstoða sig. Erin er áströlsk og býr í Sidney. Hún er nú stödd hér á landi en þegar hún flaug til Íslands fyrir miðjan desember var staðan slæm.

„Daginn sem ég flaug frá Sydney var ég með grímu því reykurinn í Sydney-dældinni var svo þykkur og þungur og það rigndi ösku. Við eigum vini og ættingja sem hafa lent í þessu og orðið fyrir tjóni vegna eldanna. Það er erfitt að þekkja ekki einhvern sem hefur orðið fyrir áhrifum,“ segir Erin.

Erin segir fjölda dýra hafa drepist í eldunum og önnur vera móðurlaus. Pokarnir séu hugsaðir fyrir þau. „Það er nýbúið að endurskoða matið, að meira en milljarður dýra hafi drepist í gróðureldunum síðan í september og þar við bætast öll særðu dýrin og fyrir þau sem hafa lifað af hafa eldarnir algerlega eyðilagt alla fæðu. Svo það eru mörg dýr sem þurfa hjálp,“ segir Erin.

Pétur vonast til að margir komi og leggi hönd á plóg í kvöld en prjónakvöldið stendur frá klukkan sjö til klukkan ellefu í kvöld á Kex Hosteli.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×