Innlent

Í­búar og starfs­fólk í sýna­tökur í dag

Sylvía Hall skrifar
Hjúkrunarheimilið Hamrar í Mosfellsbæ.
Hjúkrunarheimilið Hamrar í Mosfellsbæ. Vísir/Sigurjón

Nokkrir íbúar á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ munu fara í sýnatöku í dag ásamt því starfsfólki sem var á vakt með starfsmanni sem reyndist smitaður. Viðkomandi greindist með kórónuveiruna í gær en hafði mætt til vinnu í stuttan tíma áður en hann komst að því að náinn ættingi hefði greinst með smit.

Þetta staðfestir Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar, í samtali við fréttastofu. Hún segir alla þá sem fara í sýnatöku í dag fara í aðra sýnatöku eftir þrjá daga en deildin hefur verið sett í sóttkví.

„Sýnatökur fara fram í dag af þeim sem eru útsettastir. Síðan skoðum við það og munum skima aftur eftir þrjá daga og svo í framhaldinu af því skoðum við hvort við skimum aftur eftir þrjá daga,“ segir Kristín.

Hún segir hönnun hjúkrunarheimilisins gera það að verkum að auðvelt er að viðhalda sýkingarvörnum. Þau fari eftir öllum verkferlum og séu vel búin undir þessar aðstæður.

„Á meðan höldum við okkar sýkingarvörnum þennan hálfa mánuð og aðskiljum eininguna frá öðrum einingum. Við erum með ákveðið starfsfólk í þessari einingu svo það er enginn sem hittist. Við getum viðhaft tveggja metra regluna vel inni á einingunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×