Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur framlengt reglur um takmarkanir vegna faraldurs kórónuveirunnar um tólf daga eftir að smittilfellum fjölgaði í 29.
BBC segir frá því að alls séu fjögur viðbúnaðarstig á Nýja-Sjálandi og hafi þriðja viðbúnaðarstig verið við lýði í stórborginni Auckland frá því á miðvikudag. Annars stigs viðbúnaður er í gildi í öðrum hlutum landsins.
Nýja-Sjálandi hefur almennt gengið vel í baráttunni við veiruna og vakti það því athygli þegar smit greindist í landinu fyrr í vikunni eftir 102 daga án smits. Rakning uppruna þessara nýju smita stendur enn yfir.
Ardern sagði viðbrögðin nú vera í takti við rótgróna nálgun Ný-Sjálendinga að bregðast fljótt við aðstæðum og með afgerandi hætti. Sagðist hún fullviss um að að tólf dögum liðnum verði búið að rekja og einangra tilfellin og hægt að lækka viðbúnaðarstigið í Auckland á ný.
Öll tilvikin 29 tengjast smitklasa í Auckland og segir Ardern nú 38 manns vera í sóttkví vegna smitanna.