Erlent

Fjór­tán ný smit á Nýja-Sjá­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern er forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Getty

Heilbrigðisyfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa skráð fjórtán ný tilfelli kórónuveirunnar í landinu, degi eftir að hertar aðgerðir tóku gildi í í Auckland, stærstu borg landsins.

Ákveðið var að loka Auckland í þrjá daga eftir að fjögur ný smit greindust sem þá var þau fyrstu í landinu í heila 102 daga. Hin smituðu þá tengdust öll fjölskylduböndum.

Af þessum nýju fjórtán smitum hafa þrettán þeirra verið rakin til umræddrar fjölskyldu, en í einu tilvikanna var um að ræða mann sem hafði komið erlendis frá og var í sóttkví.

„Við sjáum að sú staða sem verið erum í er mjög alvarleg,“ segir forsætisráðherrann Jacinda Ardern. Hún segir að unnið sé að málum á yfirvegaðan og skipulegan hátt. Reikni hún með að smitum muni fjölga enn frekar áður en þeim fækkar á ný.

Reiknað er með að nokkur fjöldi fólks verði nú skikkað í sóttkví vegna hinna nýju smita. Aukinn kraftur verður settur í að skima fólk í bænum Rotorua, um 230 kílómetrum suðaustur af Auckland, en vitað er að fjölskyldan heimsótti bæinn um síðustu helgi.

Athygli hefur vakið hve vel yfirvöldum á Nýja-Sjálandi hefur almennt gengið að hefta útbreiðslu veirunnar þar í landi. Alls eru þar nú skráð 1.589 tilfelli frá upphafi faraldursins og eru 22 dauðsföll rakin til covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×