Lífið

Þáttastjórnendur eru 16 ára starfsmenn Bónus á Selfossi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Einar Ingi Ingvarsson og Óli Þorbjörn Guðbjartsson, þáttastjórnendur hlaðvarpsins Tveir Fellar.
Einar Ingi Ingvarsson og Óli Þorbjörn Guðbjartsson, þáttastjórnendur hlaðvarpsins Tveir Fellar. Aðsend mynd

Einar Ingi Ingvarsson og Óli Þorbjörn Guðbjartsson eru þáttastjórnendur hlaðvarpsins Tveir Fellar. Einar og Óli eru 16 ára gamlir og vinna saman í Bónus á Selfossi. Á meðal viðmælanda þáttanna hafa verið Þorgrímur Þráinsson, Sigga Dögg, Sölvi Tryggva og margir fleiri.

„Við ákváðum að stofna hlaðvarpið Tveir Fellar til að kynnast fleira fólki og fræða okkur um lífið og tilveruna. Við völdum þetta nafn af því að við erum góðir vinir og tókum enska orðið fellows og Íslenskuðum það,“ segja vinirnir í samtali við Vísi.

„Hlaðvarpið er einskonar menningarþáttur þar sem að við spjöllum saman um hvað sem er og tökum viðtöl við áhugavert fólk. Markmiðið okkar með þessu hlaðvarpi er að bæta mannleg samskipti og þroskast.“

Þeir segjast hafa fengið frábær viðbrögð frá öllum aldurshópum. Þúsundir hafi hlustað á viðtölin og vona þeir að fylgjendahópurinn muni stækka með tímanum.

„Við veljum fólk sem að okkur finnst áhugavert til að koma í þáttinn. Þátturinn er oftast tekinn upp á Selfossi eða Breiðholtinu. Við getum samt tekið hvar sem er.“

Mikið er um hlaðvörp hér á landi þessa dagana en félagarnir segja að ungur aldur hjálpi þeim að skera sig úr hópnum.

„Framundan eru margir góðir gestir og frábærir þættir. Næsta skref hjá okkur er að finna styrktaraðila til að styrkja þáttinn. Við erum á YouTube og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Ef þið hafið hugmynd af þætti eða gesti getið þið sent okkur á Instagram @tveirfellar eða á tveirfellar@gmail.com“

Hægt er að hlusta á viðtal þeirra við Þorgrím Þráinsson í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×