Erlent

Tvö hundruð talin af eftir sprenginguna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þessi mynd er tekin í borginni í gær og sýnir vel eyðilegginguna sem varð við hafnarsvæðið þar sem sprengjan sprakk.
Þessi mynd er tekin í borginni í gær og sýnir vel eyðilegginguna sem varð við hafnarsvæðið þar sem sprengjan sprakk. Getty/Patrick Baz

Sífellt fleiri finnast látin í rústum Beirút eftir sprenginguna þar í liðinni viku. Þessa stundina eru rúmlega 200 talin af og tuga er enn saknað að sögn þarlendra ráðamanna.

Björgunarsveitir hafa unnið sleitulaust síðustu sólarhringa í þeirri von að finna fleiri á lífi í rústunum. Franskt björgunarlið gróf þannig samfleytt í tvo sólarhringa til að komast að niðurgröfnum klefa þar sem talið var að sjö kynnu enn að vera á lífi. Eftir 48 klukkustunda mokstur fundust fimm lík í rústunum.

Haft er eftir samhæfingarstjóra björgunaraðgerðanna á vef Guardian að fyrsta stigi aðgerðanna sé lokið. Björgunarsveitirnar séu af þeim sökum ekki lengur í „björgunarfasa“ og litlar líkur eru því taldar á að fleiri finnist á lífi.

Sem stendur er áætlað að um 6000 manns hafi særst í sprengingunni og að á fjórða hundrað þúsund hafi misst heimili sín eða hafist við í löskuðum byggingum. Þannig eru þúsundir íbúða ýmist glugga- eða hurðalausar eftir sprenginguna.

Þar að auki hafði hún margvísleg efnahagsleg áhrif, ekki síst á fæðuöryggi landsins og fyrir vikið hafa mannúðarsamtök kallað eftir því að líbönsku þjóðinni verði útveguð hjálpargögn hið snarasta. Þjóðarleiðtogar sammæltust um næstum 300 milljón dala neyðaraðstoð til Líbanons á starfrænum fundi þeirra í gær, sem haldinn var að frumkvæði Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Mikil pólitísk ólga er jafnframt í landinu eftir sprenginguna, sem talin er til marks um opinbera vanrækslu og sinnuleysi. Þannig hefur verið mótmælt í Beirút síðustu daga, sem afsagnar tveggja ráðherra og þriggja þingmanna hafa ekki náð að sefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×