Erlent

Hundruð í haldi lögreglu eftir mótmæli

Sylvía Hall skrifar
Frá mótmælunum í nótt.
Frá mótmælunum í nótt. Vísir/AP

Hundruð eru sögð í haldi lögreglu eftir mótmæli stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi í gærkvöldi og í nótt. Forsetakosningar fóru fram þar í landi í gær og benda opinberar tölur til þess að forsetinn Alexander Lúkasjenkó hafi hlotið yfir 80 prósent atkvæða.

Stuðningsmenn mótframbjóðanda Lúkasjenkó, Svetlönu Tikhanovskaya, hópuðust saman á götum Minsk í gær og eru þúsundir sögð hafa mótmælt niðurstöðum kosninganna. Sjálf segist Tikhanovskaya vera efins um opinberar tölur og er haft eftir henni á vef AP að hún líti svo á að meirihlutinn sé á bak við hana í ljósi þess hversu margir hafa sýnt henni stuðning með mótmælum.

Lúkasjenkó hefur verið við völd frá árinu 1994 og hefur hann verið kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“ af gagnrýnendum. 

Til að mynda hefur reynst erfitt fyrir andstæðinga hans að bjóða sig fram, einn hefur verið fangelsaður og neyddist annar til þess að flýja til Rússlands. Þrátt fyrir að framboð Tikhanovskaya hafi orðið að veruleika voru átta starfsmenn hennar handteknir í gær.

Mikil harka færðist í mótmælin í nótt.Vísir/AP

Veronika Tsepkalo, eiginkona eins þeirra sem stefndi á framboð í ár, sagði í samtali við AP að enginn hefði fylgst með kjörkössunum í fimm daga. Yfirvöld gætu því léttilega haft áhrif á niðurstöður kosninganna og efaðist hún stórlega um að þær tölur sem birtar voru væru réttar.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir stórsigur Lúkasjenkó

Útlit er fyrir að forseti Hvíta-Rússlands, hinn þaulsetni Alexander Lúkasjenkó hafi tryggt sér forsetastólinn í eitt kjörtímabil í viðbót.

For­seta­kosningar fara fram í Hvíta-Rúss­landi í dag

Kjörstaðir voru opnaðir í Hvíta Rússlandi í morgun en þar fara forsetakosningar fram í dag. Alexander Lúkasjenkó, sitjandi forseta, er spáð sigri þrátt fyrir að mótframboð Svetlana Tikhanovskaya njóti töluverðs fylgis og Lúkasjenkó mæti þannig meiri andstöðu en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×