Innlent

Boð og bönn skipta ekki máli fari fólk ekki eftir þeim

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að fjölgun smita eins og sú sem nú á sér stað eigi eftir að endurtaka sig í nánustu framtíð. Landsmenn þurfi að læra að búa með veirunni á meðan hún sé í svo miklum vexti í heiminum.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að fjölgun smita eins og sú sem nú á sér stað eigi eftir að endurtaka sig í nánustu framtíð. Landsmenn þurfi að læra að búa með veirunni á meðan hún sé í svo miklum vexti í heiminum. Vísir/Vilhelm

Frekari stjórnvaldsaðgerðir og boð og bönn vegna kórónuveirufaraldursins eru ekki endilega lausn ef fólk fer ekki eftir þeim, að mati sóttvarnalæknis. Til skoðunar er að herða aðgerðir og setja á neyðarstig almannavarna vegna fjölgunar nýrra smita undanfarna daga.

Sautján greindust smitaðir af nýju afbrigði kórónuveirunnar innanlands í gær, þar af sex sem voru í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Nú er svo komið að 109 eru í einangrun með veiruna. Einn einstaklingur á fertugsaldri er í öndunarvél á sjúkrahúsi.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði ljóst að veiran væri búin að grafa um sig víða í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Til umræðu sé nú að setja á neyðarstig almannavarna. Það breyti þó ekki endilega miklu í hvernig tekist sé á við veiruna en ákveðin starfsemi gæti þurft að lúta takmörkunum og gera ráðstafanir á vinnustöðum.

Neyðarstig almannavarna þýddi ekki sjálfskrafa lokun staða eins og líkamsræktarstöðva, hárgreiðslustofa og sundlauga eins og gerðist í vor. Komi upp alvarleg veikindi og faraldurinn stefni í að fara úr böndunum sagði Þórólfur að mögulega þyrfti að loka slíkum stöðum aftur.

Engu að síður sagði Þórólfur að frekari stjórnvaldsaðgerðir væru ekki endilega lausnin.

„Það sem skiptir öllu máli hér er að almenningur taki við sér eins og hann gerði í vetur, taki þátt, skilji það sem er verið að gera og fari eftir því. Það skiptir engu máli boð og bönn og hvað við segjum. Ef fólk fer ekki eftir því og tekur ekki þátt þá mun ekkert gerast,“ sagði sóttvarnalæknir.

Varaði hann við því að gerist faraldurinn útbreiddur verði mun erfiðara og jafnvel vonlaust að eiga við hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×