Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er efst eftir fyrstu tvo hringina í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi.
Ragnhildur lék á 71 höggi í dag, einu höggi undir pari, og er samtals á þremur höggum undir pari. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari síðustu tveggja ára, er í öðru sæti á samtals einu höggi undir pari og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem var efst eftir gærdaginn er í þriðja sæti, en hún er samanlagt á pari vallarins eftir fyrstu tvo hringina.
Anna Júlía Ólafsdóttir og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir eru í fjórða og fimmta sæti á átta höggum yfir pari.
Keppni er enn í fullum gangi í karlaflokki en þar er Aron Snær Júlíusson efstur í augnablikinu á fimm höggum undir pari, en er eins og stendur á 14. holu vallarins. Meira um karlaflokkinn síðar í kvöld.