Erlent

Loka Aberdeen eftir mikla fjölgun smitaðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands. EPA/FRASER BREMNER

Yfirvöld í Skotlandi hafa gripið til umfangsmikilla sóttvarnaraðgerða og ferðatakmarkana í borginni Aberdeen eftir að þeim sem smitast hafa af Covid-19 hefur fjölgað mjög mikið að undanförnu. Minnst 54 hafa smitast og er óttast að nýja kórónuveiran hafi náð töluverðri útbreiðslu í borginni.

Meðal þeirra aðgerða sem verið er að grípa til er að börum og krám verður lokað og sömu sögu er að segja af söfnum, kvikmyndahúsum og annarri sambærilegri starfsemi innanhúss. Íbúum verður meinað fara meira en átta kílómetra frá heimilum sínum og mega þeir ekki fara inn á heimili annarra.

Þar að auki hefur fólki verið ráðlagt að ferðast ekki til Aberdeen.

Samkvæmt frétt Sky News segir Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, að ákvörðunin verði endurskoðuð eftir viku. Mögulega verði þær áframlengdar

„Það síðasta sem við viljum gera er að endurvekja þessar takmarkanir en faraldurinn er að minna okkur á hve smitandi Covid-19 er,“ sagði Sturgeon.

Í Skotlandi hafa minnst 18.781 smitast af Covid-19 og 2.491 hefur dáið. 64 nýsmitaðir greindust á milli daga og þar af 36 í Aberdeen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×