Erlent

Tugir farþega norsks skemmtiferðaskips smitaðir

Andri Eysteinsson skrifar
MS Roald Amundsen er nefnt eftir norska landkönnuðinum sem var sá fyrsti til að ná Suðurpólnum.
MS Roald Amundsen er nefnt eftir norska landkönnuðinum sem var sá fyrsti til að ná Suðurpólnum. Getty/Hinrich Bäsemann

Norsk heilbrigðisyfirvöld segja að að minnsta kosti 41 hafi greinst með kórónuveiruna um borð í skemmtiferðaskipinu MS Roald Amundsen sem er nú við höfn í Tromsø í Norður-Noregi.

Rekstraraðili skipsins, Hurtigruten, segir að hundruð farþega sem voru um borð í skipinu séu nú í sóttkví og bíði niðurstöðu úr skimun fyrir veirunni.

„Staðan er mjög alvarleg. Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel og höfum gert mistök,“ sagði forstjóri fyrirtækisins í yfirlýsingu Hurtigruten vegna málsins. Ekki hafi verið fylgt reglum sem Hurtigruten hafi sett sér og því sé það eina í stöðunni að hætta öllum siglingum félagsins.

Skipið var á leið í vikuferð til Svalbarða þegar fjórir áhafnarmeðlimir greindust með veiruna þegar komið var til hafnar í Tromsø. Síðar greindust 32 áhafnarmeðlimir til viðbótar með kórónuveirusmit og enn sem komið hafa sýni úr fimm farþegum skilaði jákvæðu svari á kórónuveiruprófi.

Um 180 farþegum var hleypt frá borði við komuna til Tromsø og setti það strik í reikning heilbrigðisyfirvalda. Yfirvöld hafa þó náð á alla farþegana og sæta þeir nú tíu daga sóttkví.

Búist er við því að fleiri smit muni greinast í tengslum við MS Roald Amundsen að sögn norska yfirvalda. Þá er lögreglurannsókn hafin vegna málsins. Haft er eftir lögreglunni að rík ástæða sé til þess að rannsaka málið.

Norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að stöðva að farþegar skemmtiferðaskipa með yfir 100 farþega fái ekki að fara frá borði á næstu 14 dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×