Erlent

Fleiri en 200.000 látnir í Rómönsku Ameríku

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá skimun fyrir kórónuveirunni í Mexíkóborg. Landið tók nýlega fram úr Bretlandi og settist í þriðja sætið á lista ríkja með flest dauðsföll í faraldrinum.
Frá skimun fyrir kórónuveirunni í Mexíkóborg. Landið tók nýlega fram úr Bretlandi og settist í þriðja sætið á lista ríkja með flest dauðsföll í faraldrinum. Vísir/EPA

Tala látinna í Rómönsku Ameríku í kórónuveiruheimsfaraldrinum fór yfir 200.000 manns í gær. Verst er ástandið í Brasilíu og Mexíkó þar sem um 70% dauðsfalla í heimshlutanum til þessa hafa orðið. Nýjum smitum fjölgar enn í löndunum.

Rómanska Ameríka er einn af miðpunktum kórónuveiruheimsfaraldursins. Aðeins í Bandaríkjunum hefur veiran dregið fleiri til dauða en í Brasilíu og Mexíkó.

Tilkynnt var um 1.595 dagleg dauðsföll í Brasilíu í fyrri hluta síðustu viku og höfðu þau aldrei verið fleiri. Dauðsföllin voru hátt í 1.100 í gær. Í Mexíkó létust 784 í gær og ný smit fóru í fyrsta skipti yfir 9.000 manns. Breska ríkisútvarpið BBC segir að mexíkósk yfirvöld telji að raunverulegur fjöldi smitaðra sé líklega mun hærri en opinberar tölur benda til.

Þegar yfirvöld í Perú tilkynntu um 191 dauðsfall af völdum veirunnar í gærkvöldi fór heildarfjöldi látinna í Rómönsku yfir 200.000 manns samkvæmt talningu Reuters-fréttastofunnar.

Á heimsvísu hafa nú fleiri en 17,5 milljónir manna greinst með veiruna og hátt í 679.000 manns látið lífið samkvæmt tölum Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum. Af þeim hafa rúmlega 150.000 manns látist í Bandaríkjunum og rúmlega 90.000 í Brasilíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×