Innlent

Ölvaður og virti ekki mörk einangrunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Alls rötuðu 79 mál á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 17:00 í gærkvöldi til klukkan 5:00 í morgun.
Alls rötuðu 79 mál á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 17:00 í gærkvöldi til klukkan 5:00 í morgun. Vísir/Vilhelm

Maður sem átti að vera í einangrun á heimili sínu vegna Covid-19 var vistaður í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt eftir að aðrir íbúar sögðust úrræðalausir yfir því að hann væri ölvaður og ætti erfitt með að virða mörk einangrunarinnar.

Í dagbók lögreglunnar eftir nóttina kemur fram að maðurinn hafi verið látinn renna af sér í fangageymslu. Hann var einn fjögurra sem gistu fangageymslur í borginni af ýmsum ástæðum í nótt.

Tilkynnt var um mann með hnífa á heimili sínu sem væri í annarlegu ástandi. Lögregla segir að maðurinn hafi átt við andleg vandamál að stríða. Honum hafi verið fengin „viðeigandi aðstoð“.

Tvö húsbrot voru framin. Annars vegar barst lögreglu tilkynning frá manni sem hefur hús í miðborginni til umráða. Hann kom að tveimur mönnum sem höfðu gert sig heimakomna í íbúðinni. Þeir verða kærðir fyrir húsbrot. Í Reykjavíkurhöfn tilkynnti eigandi báts að tveir hefðu komið sér fyrir í honum. Þeir verða einnig kærðir fyrir húsbrot.

Í Hafnarfirði var hjólreiðamaður sem datt harkalega fluttur til aðhlynningar á slysadeild.

Fjöldi hávaðakvartana barst lögreglunni í gærkvöldi og nótt. Þá bárust nokkrar kvartanir vegna flugeldasprenginga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×