Alan Parker, breski leikstjórinn sem er hvað þekktastur fyrir myndir eins og „Midnight Express“, „Bugsy Malone“ og „Evitu“ er látinn, 76 ára að aldri. Kvikmyndir hans unnu til tíu Óskarsverðlauna og nítján BAFTA-verðlauna.
Fjölskylda Parker segir að hann hafi látist í London eftir langvarandi veikindi, að sögn AP-fréttastofunnar.
Auk þess að leikstýra fjölda kvikmynda var Parker stjórnarformaður Kvikmyndastofnunar Bretlands og breska kvikmyndaráðsins á sínum tíma. Elísabet Bretadrottning sló hann til riddara árið 2002.
Parker var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn fyrir „Midnight Express“ sem fjallaði um Bandaríkjamann sem leið þjáningar í tyrknesku fangelsi. Myndin hlaut tvenn Óskarsverðlaun.
Hann leikstýrði fjölda söngleikja um ævina. Auk „Bugsy Malone“, sem skartaði meðal annars ungri Jodie Foster, gerði Parker „Fame“ og „Vegginn“ með hljómsveitinni Pink Floyd. Í „The Commitments“ fjallaði Parker um írska hljómsveit og þá leikstýrði hann söngkonunni Madonnu í hlutverki Evu Perón, forsetafrúar Argentínu, í myndinni „Evitu“.