Erlent

Segja heil­brigðis­kerfið hárs­breidd frá því að hrynja vegna kórónu­veirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Carrie Lam tilkynnti hertar aðgerðir í baráttunni við kórónuveiruna á blaðamannafundi í dag.
Carrie Lam tilkynnti hertar aðgerðir í baráttunni við kórónuveiruna á blaðamannafundi í dag. Qin Louyue/Getty

Stjórnvöld í Hong Kong vara nú við því að heilbrigðiskerfi sjálfstjórnarhéraðsins hrynji en kórónuveiran er í stórsókn á svæðinu. Fólki er ráðlagt að halda sig heima fyrir og nýjar hertari reglur tóku í nótt gildi í borginni þar sem fólki er gert skylt að ganga með grímur og veitingastöðum þar sem fólk situr til borðs hefur verið gert að loka.

Þá mega fleiri en tveir ekki koma saman, nema um sé að ræða nána fjölskyldumeðlimi. Um hundrað ný tilfelli koma nú upp á hverjum degi í Hong Kong en þar á bæ tókst mönnum að ná nokkuð góðum tökum á faraldrinum í byrjun árs og fyrir minna en mánuði voru tilfellin aðeins um tíu á dag að meðaltali.

Í tilkynningu sem Carrie Lam, leiðtogi sjálfstjórnarhéraðsins, gaf út í gærkvöldi varaði hún við því að ef ekki næðust tök á útbreiðslu veirunnar myndi heilbrigðiskerfið hrynja. Afleiðingarnar yrðu dauðsföll og myndi það sérstaklega bitna á eldri borgurum.

Hún biðlaði til íbúa að fylgja sóttvarnarreglum og halda sig heima eftir mestu getu. Þá tóku nýjar hertari reglur gildi í nótt í borginni, veitingastaðir lokuðu og ekki fleiri en tveir af sitt hvoru heimilinu mega koma saman. Hong Kong hefur ekki gengið svo langt áður í reglum til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Þá mun fólk, eins og áður sagði, vera skylt til að bera grímur fyrir vitum og fyrr í vikunni var tilkynnt að staðir líkt og barir, líkamsræktarstöðvar og snyrtistofur þyrftu að loka. Í byrjun mánaðarins var sett 50 manna samkomubann, svo var það hert í fjögurra manna samkomubann – og nú, tveggja.


Tengdar fréttir

Metfjöldi nýgreindra í Hong Kong

Síðastliðinn sólarhring greindist metfjöldi fólks með Covid-19 kórónuveiruna í Hong Kong. Aðgerðir í baráttunni við veiruna verða hertar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×