Viðskipti innlent

Flugvélarnar orðnar þrefalt fleiri en 15. júní

Stefán Ó. Jónsson skrifar

Flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur verið tæpur fimmtungur af því sem hún var á sama tíma í fyrra, frá því rýmkað var fyrir komu ferðamanna um miðjan júní. Daglegar komur eru þó orðnar næstum þrefalt fleiri en þær voru við upphaf tímabilsins.

Flugumferð til og frá Ísland hefur vart verið svipur hjá sjón þetta sumarið samanborið við sumarið í fyrra, enda millilandaflug í lamasessi vegna kórónuveirunnar. Þrettán flugfélög fljúga um Keflavíkurflugvöll yfir sumarmánuðina en þau voru næstum 30 í fyrra og er WOW air ekki inni í þeirra tölu, enda lagði það upp laupana í lok mars 2019.

Segja má að sumarvertíðin hafi hafist af alvöru 15. júní en þá gat fólk beðið um skimun á landamærunum í stað þess að fara í sóttkví. Þann daginn komu 8 flugvélar til landsins, samanborið við 84 sama dag í fyrra.

Þeim hefur þó farið fjölgandi hægt og bítandi allar götur síðan. Á bilinu 7 til 12 vélar lentu á Keflavíkurflugvelli á hverjum degi það sem eftir lifði júnímánaðar en um síðastliðin mánaðamót tók þeim að fjölga nokkuð ört.

Fjöldi farþegavéla sem lent hefur í Keflavík frá 15. júní í ár.isavia

Frá og með 1. júlí til dagsins í dag hafa að jafnaði 17 vélar lent í Keflavík á degi hverjum, til að mynda voru þær 22 í dag, sem kemst þó ekki í hálfkvisti við þá 81 vél sem kom til Keflavíkur að meðaltali þessa sömu daga í fyrra. Samanlagt hafa komið 570 flugvélar til landsins frá 15. júní, sem er tæpur fimmtungur þeirra 3200 véla sem lentu í Keflavík á sama tímabili 2019.

Þó má vænta þessa að flugumferðin glæðist eitthvað á næstu vikum enda gætir nýjustu undanþága frá landamæraskimun vart í þessum tölum. Frá 16. júlí hafa íbúar sex ríkja ekki þurft að fara í skimun við komuna til landsins, sem ætla má að muni greiða fyrir komu ferðamanna þaðan. Alls hafa næstum 52 þúsund sýni verið tekin við landamærin frá upphafi sumarvertíðarinnar og þar af voru 20 farþegar með virk smit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×