Ágústa Edda Björnsdóttir og Ingvar Ómarsson eru bikarmeistarar í götuhjólreiðum eftir að hafa fagnað sigri á þriðja bikarmótinu af fjórum á Norðurlandi í gær.
Um var að ræða Gangamót Greifans og hjóluðu keppendur frá Siglufirði til Akureyrar þar sem marklínan var staðsett við skíðalyftuna í Hlíðarfjalli. Svipmyndir frá mótinu má sjá hér að neðan. Keppendur hjóluðu meðal annars í gegnum þrenn göng á leiðinni og fóru karlarnir 102,8 kílómetra en konurnar 81,9.
Ágústa Edda var fyrst í kvennaflokki á 2:28:28 klukkutímum, 50 sekúndum á undan Bríeti Kristnýju Gunnarsdóttur. Hafdís Sigurðardóttir varð svo þriðja á 2:29:36.
Hjá körlunum vann Ingvar öruggan sigur en hann fór vegalengdina á 2:39:27 klukkustundum. Hann var 39 sekúndum á undan Birki Snæ Ingvasyni sem varð annar en fast á hæla hans kom Eyjólfur Guðgeirsson. Aðeins munaði þremur sekúndum á þeim.
Ágústa Edda og Ingvar hafa unnið öll þrjú bikarmótin til þessa og eru þar með bikarmeistarar þrátt fyrir að lokamótið sé eftir. Það verður í Grindavík 8. ágúst.