Erlent

Stur­geon sakaði Boris um að reyna að nýta sér far­aldurinn í pólitískum til­gangi

Andri Eysteinsson skrifar
Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skota.
Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skota. Getty/Fraser Bremner

Forsætisráðherra Skotlands sakaði í dag forsætisráðherra Bretlands um að beita kórónuveirufaraldrinum sem „einhverskonar pólitísku vopni.“

Þessa dagana sækir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Skotland heim í fyrsta sinn frá því í desember síðastliðnum. Sagði ráðherrann að viðbrögð Breta við faraldrinum væri dæmi um einskæran mátt breska konungdæmisins. Skotum hefði beðið efnahagslegar hamfarir ef ekki væri fyrir ríkissjóð Bretlands sem þeim var unnt að leita í.

Johnson hafnaði því að hann væri að nota faraldurinn í þeim tilgangi að reyna að efla stuðning skoskra við því að konungdæmið haldist í núverandi mynd en skoðanakannanir sýna að meirihluti kjósenda eru hlynntir því að Skotar sækist eftir sjálfstæði frá breska konungdæminu.

„Ekkert okkar ætti að beita þessum faraldri fyrir sér í pólítíkinni,“ sagði Nicola Sturgeon, leiðtogi skoska þjóðarflokksins og forsætisráðherra  Skota á blaðamannafundi sínum í dag.

Sturgeon gaf þá lítið fyrir ummæli Johnson um að mikilvægi breska ríkissjóðsins fyrir Skota. „Værum við sjálfstætt ríki þá myndum við sjá um þetta sjálf, rétt eins og Írar gera,“ sagði Sturgeon.

„Ég tel að það ætti enginn að fagna vegna faraldurs sem hefur kostað þúsundir lífið,“ bætti ráðherrann við. Skoðanakannanir teknar í Skotlandi hafa sýnt fram á það að þrefalt meiri ánægja ríkir um störf Sturgeon en Johnson þegar við kemur faraldrinum.

Johnson svaraði því ekki beint þegar hann var spurður um mögulegar ástæður fyrir þeim mun. „Ágreiningur í stjórnmálum ætti ekki að skipta neinn máli. Raunveruleikinn er sá að þjóðin er að bregðast við faraldrinum á hátt sem sameinar okkur frekar en að sundra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×