Lögreglan í frönsku borginni Nantes hefur handtekið 39 ára gamlan karlmann eftir eldsvoðann í dómkirkju borgarinnar.
Greint hefur verið frá því að grunur leiki á að um íkveikju sé að ræða. Lögmaður mannsins sem hefur verið handtekinn segir að ekkert bendi til þess að skjólstæðingur sinn sé tengdur íkveikjunni og minnir á grundvallarregluna um sakleysi uns sekt er sönnuð.
Maðurinn sem var handtekinn starfaði í sjálfboðaliðastarfi hjá dómkirkjunni og var það á hans ábyrgð að læsa kirkjunni á föstudagskvöld. Reuters hefur eftir saksóknaranum Pierre Sennes að maðurinn hafi verið handtekinn til að fara yfir óregluleg atriði í vaktaplani hans.
Séra Hubert Champenois, sóknarprestur dómkirkjunnar, segir að maðurinn hafi starfað fyrir kirkjuna í áraraðir og að honum sé fullkomlega treyst.