Innlent

Hætta á vatnavöxtum og skriðuföllum víða um landið norðanvert

Andri Eysteinsson skrifar
Úrkoman eins og hún var klukkan 01:00 aðfaranótt föstudagsins.
Úrkoman eins og hún var klukkan 01:00 aðfaranótt föstudagsins. Veðurstofan

Hætta er á vatnavöxtum og skriðuföllum á norðanverðum Vestfjörðum, Ströndum, Skaga og á Tröllaskaga.

Mikil úrkoma hefur orðið á síðustu sólarhring víðs vegar um landið en appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út á Vestfjörðum vegna mikillar rigningar og hættu á skriðuföllum.

Á vef Veðurstofunnar er greint frá því að mikil úrkoma á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum valdi því að rennsli Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum mælist yfir 200 ára flóðþröskuldi og er búast við því að hún haldi áfram að hækka vegna áframhaldandi úrkomu. Hefur vatnshæð í ánni hækkað um tæpan meter á síðasta sólarhring samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Þá má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum á Tröllaskaga þar sem einnig er hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum.

Sunnar á landinu er einnig von á mikilli úrkomu og við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul má búast við leysingum með hækkandi vatnshæð og miklu rennsli í lækjum og ám.

Varað er við því að vöð gætu orðið varasöm og er ferðafólk hvatt til þess að sýna aðgát við óbrúaðar ár svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×