Innlent

Svarti­dauði ekki dauður en lítið á­hyggju­efni

Sylvía Hall skrifar
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða.
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða. Vísir/Getty

Tilfelli af svartadauða sem greindist í borginni Bayannur í sjálfstjórnarhéraðinu Innri-Mongólíu er ekkert áhyggjuefni að mati Sigurðar Guðmundssonar smitsjúkdómalæknis. Nokkur hundruð tilfelli greinist á ári hverju, þó það sé ekki á Íslandi.

„Svarti dauði er alls ekkert dauður í samfélaginu, síður en svo, en mjög sjaldgæfur og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur,“ sagði Sigurður í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Það sé því ekki mjög fréttnæmt að þetta tilfelli hafi komið upp.

Stjórnvöld í Kína hafa þó aukið varúðarráðstafanir vegna sjúkdómsins og hefur maðurinn verið settur í einangrun. Grunur er um annað smit á svæðinu en ekki er vitað hvernig maðurinn, sem starfar sem smali, smitaðist.

Sigurður fór stuttlega yfir sögu svartadauða hér á landi og lýsti sjúkdómnum. Um er að ræða bakteríu sem nefnist Yersinia pestis og veldur hún sjúkdómnum, sem er að mestu leyti bundinn við nagdýr.

Hann getur þó borist í menn með flóm nagdýra og valdið lungna- og kýlapest. Pestin getur svo borist milli manna með úðasmiti, sem hefur líklega verið tilfellið hér á landi að sögn Sigurðar enda engar rottur á Íslandi á þeim tíma.

„Þetta er svolítið interessant saga en ekki líklegt að hún endurtaki sig,“ sagði Sigurður og bætti við að svartidauði væri mun skæðari sjúkdómur en Covid-19. Í raun kæmist Covid-19 ekki með tærnar þar sem svartidauði hefði hælana.

Hér að neðan má hlusta á viðtal við Sigurð í heild sinni þar sem hann ræðir meðal annars kórónuveirufaraldurinn, skimun á landamærunum og svartadauða. Umræða um svartadauða hefst á sjöundu mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×