Erlent

Síðasti breski ríkis­stjóri Hong Kong líkir stöðunni við 1984

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla fjarlægir vegatálma sem mótmælendur höfðu reist í Hong Kong.
Lögregla fjarlægir vegatálma sem mótmælendur höfðu reist í Hong Kong. AP/Vincent Yu

Kínverjar sögðust í dag afar ósáttir við gagnrýni annarra ríkja á ný öryggislög í Hong Kong. Löggjöfin snýst um að tryggja yfirráð Kínverja á þessu sjálfsstjórnarsvæði. Gagnrýnendum þykir löggjöfin brot á samkomulagi sem gert var þegar Bretar afhentu Kína Hong Kong árið 1997 um að íbúar svæðisins ættu að hafa sjálfsstjórn næstu fimmtíu árin.

Bandaríska fulltrúadeildin samþykkti í nótt að refsa bönkum sem eiga í viðskiptum við kínverska embættismenn vegna málsins en öldungadeildin á eftir að taka málið fyrir. Bretar ætla að bjóða milljónum dvalarleyfi og loks ríkisborgararétt. 

Áströlsk stjórnvöld íhuga að taka einnig á móti íbúum Hong Kong. „Við erum að íhuga málið alvarlega, en ég lagði þetta til fyrir nokkrum vikum. Það er verið að leggja lokahönd á málið og það verður senn lagt í dóm ríkisstjórnarinnar,“ sagði Scott Morrison, ástralski forsætisráðherrann.

Kínverjar eru ósáttir við þessi afskipti og segja um innanríkismál að ræða. Zhao Lijian, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis Kína, sagði stjórnvöld til að mynda afar ósátt við samþykkt bandaríska þingsins.

Chris Patten var ríkisstjóri Hong Kong áður en Kínverjar tóku yfir og líkir nýju lögunum við hina frægu bók Orwells, 1984. „Þessi lög heimila Kínverjum að skilgreina hugtök á borð við uppreisn, uppreisnaráróður og samráð við erlenda óvini eftir geðþótta og gera þeim kleyft að rétta yfir fólki á meginlandinu,“ sagði Patten.


Tengdar fréttir

Ræða möguleikann á útlagaþingi Hong Kong

Lýðræðissinnar í Hong Kong eru sagðir íhuga að koma á fót óopinberu útlagaþingi utan borgarinnar til þess að tala máli lýðræðis og senda kínverskum stjórnvöldum skilaboðum eftir að umdeild öryggislög voru samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×