Erlent

Síðasta símtalið var við soninn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth Hagen síðan á hrekkjavökunni 31. október 2018.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth Hagen síðan á hrekkjavökunni 31. október 2018. Vísir/AP

Anne-Elisabeth Hagen hringdi í son sinn að morgni 31. október 2018. Þetta eru síðustu samskipti Anne-Elisabeth við umheiminn áður en hún hvarf sporlaust af heimili sínu síðar um morguninn.

Þegar hefur komið fram að Anne-Elisabeth hafi rætt við skyldmenni sitt í síma klukkan 9:14, um korteri eftir að Tom Hagen fór í vinnuna. Þetta símtal er síðasta lífsmarkið en ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan. Þá hefur ekkert nánar verið gefið út um viðmælandann eða efni símtalsins, þar til nú.

Norska dagblaðið VG greindi frá því í gær að Anne-Elisabeth hafi hringt í son sinn, sem hún átti með eiginmanninum Tom Hagen, þarna um morguninn. Þau töluðu saman í 92 sekúndur, rétt rúma eina og hálfa mínútu. Sonurinn mun hafa rætt símtalið í þaula við lögreglu, enda gengur hún út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt einhvern tímann á hálftímanum sem leið eftir að símtalinu var slitið.

Ræddu launamál og hrekkjavöku

VG hefur eftir heimildum sínum að sonurinn hafi í fyrstu verið óviss um það sem fór honum og móður hans á milli. Þá sjái hann mjög eftir því að hafa verið fúllyndur við mömmu sína. Tíu dögum eftir að Anne-Elisabeth hvarf var sonurinn kallaður til þriðju skýrslutökunnar. Þar sagði hann að þau hefðu rætt launamál - bæði Anne-Elisabeth og sonurinn unnu hjá fyrirtæki Toms Hagen - og hrekkjavökuna, sem bar einmitt upp umræddan dag. Þá hefðu þau einnig talað um að Anne-Elisabeth ætlaði að passa barnabörn sín síðar þennan sama dag. 

Lögmaður sonarins segir í samtali við VG að umbjóðandi sinn sé meðvitaður um umfjöllun blaðsins en vilji ekki tjá sig um málið.

Um hálftíma áður en Anne-Elisabeth ræddi við son sinn spjallaði hún símleiðis við starfsmann fyrirtækis Toms Hagen, sem hún þekkti vel. Konan lýsti því að Anne-Elisabeth hafi virst eins og hún átti að sér að vera, þær hefðu talað um launamál og leiksýninguna The Book of Mormon sem Hagen-hjónin höfðu farið að sjá með vinahjónum kvöldið áður.

Tom Hagen var handtekinn í lok apríl grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana eða átt aðild að dauða hennar. Hann hefur verið laus úr varðhaldi síðan strax í byrjun maí og neitar sök.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×