Erlent

Stefnir í aðra umferð kosninga í Póllandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Andrzej Duda er sitjandi forseti Póllands. Hann er efstur í forsetakjöri þar í landi, ef marka má útgönguspár.
Andrzej Duda er sitjandi forseti Póllands. Hann er efstur í forsetakjöri þar í landi, ef marka má útgönguspár. Petr David Josek/AP

Útgönguspár pólsku forsetakosninganna sem fram fara í dag benda til þess að Andrzej Duda, sitjandi forseti Póllands, verði atkvæðamestur eftir fyrri umferð kosningana. Spárnar benda þó til þess að Duda komi ekki til með að ná hreinum meirihluta í fyrstu umferð. Verði raunin sú þarf að kjósa á milli tveggja atkvæðamestu frambjóðendanna í annarri umferð.

Þetta kemur fram á vef AP-fréttastofunnar. Útgönguspár benda þá til þess að Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár fyrir hönd Borgaraflokksins, verði annar í kosningunum. Eins og sakir standa er Duda áætlað 41,8% fylgi, en Trzaskowski 30,4%. Fyrir fram voru þessir tveir taldir líklegastir til að hljóta brautargengi hjá kjósendum í Póllandi. Gert er ráð fyrir að lokatölur kosninganna muni liggja fyrir á miðvikudagskvöld.

Ef kemur til seinni umferðar kosninganna er talið líklegt að valið muni standa á milli þessa manns, Rafal Trzaskowski, og Duda forseta.Petr David Josek/AP

Frambjóðandinn sem er þriðji samkvæmt útgönguspám er sjónvarpsmaðurinn og blaðamaðurinn Szymon Holownia, með 13,3%. Hann er óflokksbundinn, en kannanir benda til þess að meirihluti stuðningsmanna hans myndi styðja Trzaskowski, kæmi til seinni umferðar milli hans og Duda.

Forsetakosningarnar í Póllandi áttu að fara fram 10. maí síðastliðinn, en var frestað sökum kórónuveirufaraldursins. Flokkur Duda, laga- og réttlætisflokkurinn, lagðist harðlega gegn því að kosningunum yrði frestað. Í apríl, skömmu áður en kosningarnar áttu upphaflega að fara fram, naut Duda yfirgnæfandi stuðnings samkvæmt skoðanakönnunum, og var hann talinn líklegur til þess að vinna kosningarnar með hreinan meirihluta í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×