Fótbolti

Ótrúlegur Jón Dagur fékk 10 í einkunn | „Besti leikurinn á ferlinum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur átti leik lífs síns í gær.
Jón Dagur átti leik lífs síns í gær. Vísir/Århus Stiftsti­dende

Ótrúleg frammistaða íslenska landsliðsmannsins Jóns Dags Þorsteinssonar skilaði honum 10 í einkunn hjá danska vefmiðlinum Århus Stiftsti­dende í gær. Jón Dagur skoraði þrennu í ótrúlegum 4-3 útisigri AGF á toppliði Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni.

Ekki nóg með það heldur lagði Jón Dagur upp sigurmark AGF þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma.

Jón Dagur fékk eðlilega mikið lof fyrir frammistöðu sína í leiknum enda ekki oft sem menn skora þrennu og hvað þá þegar þeir spila ekki sem framherjar. Lék Jón Dagur á hægri vængnum í 4-3-3 leikkerfi AGF.

Á meðan Jón Dagur fékk 10 í einkunn þá voru samherjar hans með á bilinu fjóra til sjö. Jón Dagur var því ekki aðeins besti leikmaður AGF á vellinum í gær, hann var langbesti maðurinn á vellinum.

„Það er óhætt að segja að þetta sé minn besti leikur á ferlinum. Annars hefði ég átt að skora fjögur mörk í leiknum, hélt eitt augnablik að ég hefði skorað úr aukaspyrnu,“ sagði Jón Dagur við Århus Stiftsti­dende eftir leik.

„Sigurinn skiptir okkur miklu máli og við sýndum hvað í okkur býr. Við erum með frábæran hóp og sýndum að við gætum unnið alla,“ sagði hann einnig.

Mikael Anderson, samherji Jóns í íslenska U21 árs landsliðinu, var fjarri góðu gamni í leiknum en hann hefur spilað stórt hlutverk í liði Midtjylland á leiktíðinni.

Hinn 22 ára gamli Jón Dagur lék með enska liðinu Fulham áður en hann flutti sig um set til Danmörkur. Hann hefur verið fyrirliði U-21 árs lið Íslands undanfarin ár og á alls 39 leiki fyrir yngri landslið Íslands ásamt þremur A-landsleikjum. Þeir verða eflaust fleiri þegar fram líða stundir.

AGF er í góðum málum er varðar möguleika á Evrópusæti en liðið er í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 54 stig. Þó töluvert á eftir FC Kaupmannahöfn sem situr í öðru sæti með 61 stig en nokkuð á undan liðunum í fjórða og fimmta sæti. Það eru Nordsjælland og Bröndby, bæði með 45 stig.

Midtjylland trónir svo á toppi deildarinnar með 69 stig.

Það má til gamans geta að það eru Íslendingar á mála hjá fjórum efstu liðum dönsku úrvalsdeildarinnar en ásamt þeim Jón Degi og Mikael eru varnarmennirnir Ragnar Sigurðsson í FC Kaupmannahöfn og Hjörtur Hermannsson í Bröndby.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×