Lífið

Orðinn hundrað ára og fer enn í sumar­bú­staðinn í Dan­mörku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Oddur og Kirsten.
Oddur og Kirsten. Stöð 2/Vísir

Þegar hann hætti að vinna ákvað Oddur Magnússon þá tæplega sjötugur að kaupa sumarhús í Danmörku ásamt danskri eiginkonu sinni. Þau langaði að verja sumrunum þar en því miður lést Kirsten stuttu síðar. Oddur ákvað hins vegar að halda áfram að fara út og hefur síðustu þrjátíu árin farið út í maí og komið heim að hausti.

Á dögunum fagnaði Oddur hundrað ára afmæli sínu, hefur ekki komist út í ár vegna kórónuveirunnar en var fljótur að panta sér far þegar Icelandair ákvað að byrja að fljúga þangað 15. ágúst. Í þætti kvöldsins hittum við Odd, förum í afmælið hans, fylgjum honum út, förum í sumarhúsið og fáum að vita allt um líf hans og störf í gegnum tíðina.

Oddur og Kirsten eiginkona hans.Stöð 2

„Mér hefur liðið vel öll þessi ár. Alveg frá því ég var smástrákur og þar til ég er orðinn hundrað ára. Ég er fæddur og uppalinn á Skaganum, Akranesi,“ segir Oddur. Oddur bjó á Akranesi þar til hann varð sautján ára gamall en síðan þá hefur hann búið á Akureyri, Blönduósi og í Danmörku þar sem hann kynntist eiginkonu sinni Kirsten.

Saman eignuðust þau þrjú börn. Þau hafa síðan eignast 51 afkomanda. „Ég hélt það væri nú ekki nema fjörutíu og sjö eða átta en það getur vel verið að þau séu orðin 51.“

Þau hjónin keyptu sér sumarhús þegar þau hættu að vinna og ætluðu að verja sumrunum þar en eins og fyrr segir náði Kirsten ekki að njóta nema örfárra ára með honum á Sjálandi.

Oddur og Kirsten með elsta son sinn.Stöð 2

Oddur segist enn sakna hennar. „Það eru komin yfir þrjátíu ár síðan en já, maður saknar alltaf.“

Það kom aldrei til greina að kynnast nýrri konu. Kirsten var hans eina sanna ást en þó engin önnur kona hafi komið inn í líf hans hætti hann ekki að lifa lífinu. Hann hefur alltaf búið einn, býr enn í sinni eigin íbúð í Reykjavík. Hann þrífur, eldar, þvær, straujar og bakar og segist ekki þurfa mikla hjálp. Hann fer í sund á hverjum einasta degi og hefur varla sleppt úr degi síðan 1954 og þakkar hann fiski og sundi hreystina.

Hann hlakkar til að komast til Danmerkur en viðurkennir að: „Ég er nú orðinn stirður í dönskunni. Merkilegt!“

Annað átti reyndar eftir að koma í ljós en sem fyrr segir er Oddur alinn upp á Skaganum, sem þá var sveitabær, elstur níu systkina. Oddur segir flest hafa þróast í rétta átt með tímanum. Flest sé betra í dag en áður og hefur hann litlar áhyggjur af framtíðinni.

Oddur var ánægður með að vera mættur um borð í flugvélina á leiðinni til Danmerkur.Stöð 2

„Nei, alls ekki. Þetta er svo myndarlegt, frjálslegt fólk og duglegt. Það getur bara átt góða framtíð.“

Ísland í dag fylgdi Oddi upp á völl og til Danmerkur. Hann var alls ekki á því að þiggja hjálp og arkaði hann um flugvöllinn á tveimur jafnfljótum, í gegn um alla flugstöðina. Hann þáði einn kaffibolla á meðan beðið var eftir flugi og svo hélt hann áfram einn og óstuddur út í vél. Oddur viðurkennir að hann sé spenntur að koma á uppáhalds staðinn sinn, sumarhúsið á Sjálandi.

Kastrupflugvöllur var hálf tómur þegar á staðinn var komið og tók því enga stund að komast í gegn um flugstöðina. Leiðin lá beint út í bíl og klukkustund síðar var komið á áfangastað þar sem fjölskylda eiginkonu Odds heitinnar tók á móti honum að dönskum sið. Oddur var eiginlega orðlaus yfir móttökunum.

Oddur með Ernu Freyju dóttur sinni.Stöð 2

„Ég hef eiginlega ekki orð yfir það bara. Þetta var svo einstakt,“ segir Oddur.

„Það er ekki hægt að fá betri móttökur,“ segir Erna Freyja, dóttir Odds. „Mjög danskar, enda er móðir mín dönsk og þetta er móðurfjölskyldan mín. Hluti af henni.“

Oddur var hæstánægður að vera kominn aftur í dönsku sveitina. „Mér líður náttúrulega alveg yndislega núna.“ Oddur segist ætla að halda sínu striki, slá grasið og baka. „Ég geri það svo lengi sem ég stend á löppunum.“

Oddur er duglegur að slá grasið við bústaðinn á Sjálandi.Stöð 2

Erna Freyja verður með Oddi í bústaðnum næsta mánuðinn. „Þetta er hans unaðsreitur. Kemur hérna á hverju einasta ári og við viljum endilega að hann njóti þess eins lengi og hægt er.“

Börnin og barnabörnin eru í mjög góðum tengslum við Odd og eru dugleg að kíkja til hans í heimsókn. Þau skiptast á að kíkja til hans og færa honum byrgðir, þar á meðal fisk frá Íslandi sem hann borðar að minnsta kosti fimm sinnum í viku.

Oddur í góðu yfirlæti í bústaðnum. Myndin var send til þáttastjórnenda Íslands í dag nokkrum dögum eftir að Oddur kom til Danmerkur.Stöð 2

Oddur segist ekkert smeykur við það að vera einn í bústaðnum og þurfa að sjá um sig sjálfur þar. Honum leiðist heldur aldrei þegar hann er þar. „Hérna þarf maður oftast að slá einu sinni í viku og svo er alltaf eitthvað að gera. Maður getur haft alveg nóg að gera og svo ef mann langar þá gerir maður ekki neitt,“ segir Oddur og hlær.

Oddur ætlar að vera í bústaðnum út Ágúst og segist hlakka til sumarsins. „Ég er mjög ánægður með að vera kominn.“ Þá segist hann vona að hann komi aftur næsta maí.

Oddur kemur ekki aftur fyrr en í haust enda ljóst að á Sjálandi kann hann best við sig.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×