Erlent

Meintir morðingjar Lübcke mættu fyrir dóm

Sylvía Hall skrifar
Stephan Ernst játaði morðið á síðasta ári en hefur dregið játningu sína til baka.
Stephan Ernst játaði morðið á síðasta ári en hefur dregið játningu sína til baka. Vísir/Getty

Réttarhöld yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um morðið á þýska stjórnmálamanninum Walter Lübcke hófust í dag. Lübcke lést eftir að hafa verið skotinn af stuttu færi í garði sínum fyrir ári síðan.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en Lübcke var þekktur fyrir afstöðu sína í innflytjendamálum, var mikill andstæðingur öfga-hægri hópa og hópa sem ala á hatri í garð innflytjenda. Hann gegndi stöðu ríkisstjóra í Hesse í Þýskalandi og var flokksbróðir Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Lübcke fannst látinn fyrir utan heimili sitt þann 2. júní á síðasta ári og var sjálfsvíg fljótlega útilokað.

Maður að nafni Stephen Ernst er sakaður um að hafa myrt Lübcke og öðrum manni, Markus H, er gefið að sök að hafa aðstoðað hann við verknaðinn. 

Ernst hefur áður játað verknaðinn og sagðist hafa myrt Lübcke vegna frjálslyndra skoðana hans. Hann hefur nú dregið játninguna til baka en hann er tengdur inn í öfga-hægri hópa í Þýskalandi.

Markus H. sem grunaður er um að hafa aðstoðað Stephan Ernst við morðið.Vísir/Getty

Ef mennirnir verða dæmdir fyrir verknaðinn er það í fyrsta sinn frá því í seinni heimsstyrjöld að öfga-hægri menn eru dæmdir fyrir pólitískt morð, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Þá hefur Ernst einnig verið ákærður fyrir morðtilraun þegar írakskur hælisleitandi var stunginn árið 2016.

Lübcke tók afgerandi afstöðu með innflytjendum á sama tíma og útlendingahatur fór að verða meira áberandi í Þýskalandi. Hann hafði fengið morðhótanir og var undir eftirliti lögreglu um tíma.

Saksóknarar segja rasisma og útlendingahatur hafa verið helstu hvata morðingjanna. Í yfirlýsingu frá eiginkonu Lübcke og sonum hans segja þau engan stað fyrir hatur og ofbeldi í þýsku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×