Erlent

Sonur eins ríkasta manns Kína sagður hafa synt yfir á til að láta vita af mannránstilraun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglumaður í Foshun í Kína.
Lögreglumaður í Foshun í Kína. EPA/ALEX PLAVEVSKI

Lögregluyfirvöld í Kína segjast hafa komið í veg fyrir bíræfna tilraun til mannráns þegar fimm menn, sagðir vopnaðir sprengjubúnaði, brutust inn á heimili He Xiangjian, eins ríkasta manns Kína, og reyndu að ræna honum. Sonur hans er sagður hafa náð að sleppa úr haldi mannræningjanna og synt yfir nærliggjandi á til þess að gera lögreglu viðvart.

Mannránstilraunin er sögð hafa átt sér stað í gærkvöldi og hafa erlendir miðlar eftir staðarmiðlum í Kína að mannræningjarnir hafi brotið sér leið inn í lúxusvillu hins 77 ára Xiangjian í borginni Foshan í gær. Lögregla var kölluð á vettvang síðdegis og segir í frétt New York Times að um tólf tímum síðar hafi verið búið að handtaka mennina sem ætluðu sér að ræna Xiangjian.

Xiangjian er sagður hafa sloppið heill heilsu og er það ekki síst þakkað 55 ára gömlum syni hans sem sagður er hafa synt yfir á til þess að hringja á lögregluna. Gríðarlegur viðbúnaður var vegna hins meinta mannráns en íbúar í grennd segjast ekki hafa þurft að halda sig innandyra frá því að lögregla mætti á svæðið.

Xiangjian er stofnandi Midea Group, eins þekktasta framleiðenda heimilistækja í Kína en auðæfi hans eru metin á 25 milljarða dollara, um þrjú þúsund milljarða króna. Xiangjian lét af störfum sem stjórnarformaður Midea árið 2012 en hann og fjölskylda hans eru enn stærstu hluthafarnir.

Í frétt BBC segir að mannránstilraunin hafi verið afar vinsælt umræðuefni á kínverskum samfélagsmiðlum, þar sem tilrauninni hafi meðal annars verið líkt við hasarmynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×