Erlent

Heitir 140 milljónum til þess sem veitt getur upplýsingar um hvar Anne-Elisabeth er niðurkomin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla gengur út frá því að Anne-Elisabeth Hagen hafi verið myrt, en ekki er útilokað að henni hafi verið rænt.
Lögregla gengur út frá því að Anne-Elisabeth Hagen hafi verið myrt, en ekki er útilokað að henni hafi verið rænt. AP

Tom Hagen hefur heitið því að greiða þeim sem veitt getur upplýsingar sem leiða til þess að Anne Elisabeth Hagen, eiginkona hans, finnist tíu milljónir norskar krónur, um 140 milljónir íslenskra króna. Hagen sjálfur hefur stöðu grunaðs í málinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef TV2 en sjónvarpsstöðin mun í kvöld sýna viðtal við Svein Holden, lögfræðing Hagen. Þar mun hann fara nánar yfir fundarlaunin og hvernig málið horfir við skjólstæðingi hans.

Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan 31. október 2018 eftir að hún hvarf af heimili þeirra í Lorenskógi í Noregi. Lögreglan telur að hún hafi verið myrt þó enn sé talinn möguleiki á því að henni hafi verið rænt.

Hagen hefur stöðu grunaðs hjá lögreglu vegna málsins en hann var handtekinn í apríl og settur í gæsluvarðhald. Hann hefur þó gengið laus frá því í síðasta mánuði þar sem Hæstiréttur úrskurðaði að leysa ætti Hagen úr varðhaldi, vegna skorts á sönnunargögnum.

„Okkur þykir mjög sérstakt að hann sé grunaður í málinu. Tom Hagen heldur því sterklega fram að hann hafi ekki átt neina aðild að hvarfinu. Og miðað við hvernig málin standa teljum við að þetta sé besta leiðin til þess að fá upplýsingar um það hver kunni að vera sök á þessu,“ sagði Holden við TV2 um upphæðina sem Hagen, einn ríkasti maður Noregs, hefur heitið í skiptum fyrir gagnlegar upplýsingar.


Tengdar fréttir

Birta hótunarbréfið í fyrsta sinn

Norska dagblaðið VG birti í dag hótunarbréf sem auðjöfurinn Tom Hagen segir að hann hafi fengið sent eftir að eiginkona hans, Anne-Elisabeth Hagen, hvarf af heimili þeirra hjóna í Lorenskógi árið 2018.

Hagen sleppt úr gæsluvarðhaldi

Tom Hagen hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að Hæstiréttur Noregs úrskurðaði gegn lögreglunni um framlengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×