Erlent

Líkbrennslur í Nýju Delí hafa ekki undan

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir menn standa við bálköst í Nýju Delí þar sem verið er að brenna lík.
Tveir menn standa við bálköst í Nýju Delí þar sem verið er að brenna lík. AP/Manish Swarup

Þeim sem smitast af Covid-19 fer nú hratt fjölgandi í höfuðborg Indlands. Staðan þar hefur versnað til muna og hafa líkbrennslur ekki undan og geta ekki brennt líkin nógu hratt. Indland hefur nú tekið fram úr Bretlandi varðandi staðfestan fjölda smitaðra og situr í fjórða sæti á heimsvísu með minnst 297.535 smitaða.

Eins og víða annarsstaðar segja sérfræðingar þó líklegast að smitaðir séu í raun mun fleiri, vegna skorts á skimun fyrir Covid-19. Í dag var í fyrsta sinn sem fleiri en tíu þúsund nýsmitaðir greindust.

Minnst 8.498 hafa dáið í Indlandi en verst er staðan í Nýju Deli, höfuðborg Indlands, þar sem embættismenn segja að í lok júlí gætu rúmlega hálf milljón manna hafa smitast af veirunni.

Í samtali við AP fréttaveituna segir Manish Sisodia, einn af æðstu embættismönnum borgarinnar, að fari allt á versta veg þurfi borgin minnst 80 þúsund sjúkrarými. Þau eru um níu þúsund í dag.

Rætt var við forsvarsmenn einnar líkbrennslu sem sögðu að eftir að brennslukerfi biluðu neyddust starfsmenn til að byrja að brenna fólk á bálköstum.

Staðan er svo slæm á sjúkrahúsum í Indlandi að heilbrigðisstarfsmenn hafa neyðst til þess að vísa smituðum frá sjúkrahúsum.

Þrátt fyrir að staðan sé svo erfið í Nýju Delí hafa ráðamenn ákveðið að framlengja ekki félagsforðun þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×